Þrír leikir fara fram í Domino’s deild kvenna í dag. Baráttan um sæti í úrslitakeppninni er í fullum gangi, og eru Skallagrímur og Haukar jöfn að stigum í 4. og 5. sæti deildarinnar með 20 stig. Haukar mæta í heimsókn til botnliðs Grindavíkur í kvöld, og geta með sigri komið sér í fjórða sæti deildarinnar um stundarsakir.
Annars staðar á Suðurnesjum taka Keflvíkingar á móti Breiðabliki. Með sigri geta Keflvíkingar mögulega saxað á topplið Vals og KR, en Blikar eiga möguleika á að færa sig fjær fallsæti deildarinnar.
Stórleikur kvöldsins fer hins vegar fram í DHL-höllinni í Vesturbæ Reykjavíkur þegar liðið í öðru sæti, KR, tekur á móti toppliði Vals. Valskonur hafa unnið báðar viðureignir liðanna hingað til, og hafa fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar.
Allir leikirnir hefjast klukkan 19:15.