spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHörkuHeimasigur í Garðabæ

HörkuHeimasigur í Garðabæ

Það var frábær stemmning í húsinu þegar að Tindastólsmenn mættu til þess að etja kappi við topplið Stjörnunnar. 600 manns á pöllunum, nóg af norðanmönnum og létu áhorfendur vel í sér heyra.

Stjarnan byrjaði betur en Stólarnir svöruðu byrjunaráhlaupinu og hélst leikurinn jafn þangað til í lok annars leikhluta þegar að Stjörnumenn náðu smá áhlaupi og fóru inn í hálfleikinn með 13 stiga forystu, 43–30. Þessi forysta hélst allt til loka, var um það bil 10 stig mestallan tímann. Síðustu mínúturnar voru spennandi og Stólarnir hótuðu endurkomunni en allt kom fyrir ekki og heimamenn unnu stóran sigur. 73-66.

Stigahæstir heimamanna voru Ægir Þór og Nick Tomsick með 19 stig en hjá gestunum skoraði Gerel Simmons 18.

Tölfræðin lýgur ekki

Þessi leikur var að mati undirritaðs mikið fyrir augað, en það var ekki vegna þess að menn voru að kveikja í netinu. Bæði lið skutu illa fyrir utan þriggja stiga línuna, bæði með 20% nýtingu og bæði lið með 33% nýtingu í heildina.

Þessi leikur vannst á fráköstunum. Tindastólsmenn tóku 44 fráköst sem telst býsna gott, enda eru fleiri fráköst í boði þegar enginn getur keypt sér körfu. Stjörnumenn hins vegar hirtu 58 fráköst, þar af 20 í sókn.

Lokasókn

Ægir Þór skoraði körfu fyrir Stjörnuna sem kom þeim 5 stigum yfir þegar að um 39 sekúndur voru eftir á leikklukkunni.

Það sem eftir fylgdi var áhugavert.

Baldur ákvað að taka ekki leikhlé, sem í sjálfu sér er ekkert skrítið því það er gott að eiga það inni en það sem að undirrituðum fannst einkennilegt var að Tindastóll hafði gott tækifæri til þess að fá tvær sóknir. Hins vegar þá kom ekki skot fyrr en með 22 sekúndur eftir sem þýddi að nákvæmlega sama hver útkoma sóknarinnar yrði þá þurftu þeir að brjóta á Stjörnumönnum.

Frábær skemmtun

Það var frábært tempo í leiknum. Dómarar leiksins voru ekki að halda langa flautukonserta heldur leyfðu leiknum að fljóta þrátt fyrir talsverða hörku. Stjörnumenn eru besta hraðaupphlaupslið landsins en norðanmenn réðu bara ágætlega við það þrátt fyrir nokkrar undantekningar.

Hrós til dómara leiksins sem höfðu virkilega góð tök á þessu.

Staðan

Stjörnumenn eru núna á toppnum með 24 stig en Tindastóll í þriðja sæti með 18. Það koma bikarleikir núna eftir helgi en svo heldur veislan bara áfram.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -