Eftir fjórtán umferðir í Subwaydeild karla eru línur farnar að skýrast og baráttur um sæti í deildinni eða í úrslitakeppninni farnar að herðast. Því er við hæfi að kíkja á hversu marga sigra þarf í þeim átta leikjum sem eftir eru til að tryggja framangreind sæti í sögulegu samhengi.
Árið 1997 var tekið upp það fyrirkomulag í efstu deild karla sem nú er við lýði. Tólf lið og tvöföld umferð eða alls 22 leikir fyrir hvert og eitt lið. Frá því þetta fyrirkomulag var tekið upp hefur að meðaltali þurft 6,8 leiki til að halda sér frá falli í 1. deild. Seinustu tíu ár hefur þetta meðaltal hækkað í 7,1 en miðgildið hefur hins vegar alltaf verið 7. Hæsta gildið í þessari samantekt var 2017 þegar Skallagrímur féll með 7 sigra. Lið hafa fjórum sinnum fallið með 5 sigra í pokanum en aldrei á seinustu 10 árum.
Ef marka má þessa tölfræði þurfa fjögur af neðstu liðum deildarinnar að sigra nokkra leiki til að halda sér uppi. Höttur þarf tvo sigra til að halda sér í deildinni, Þór Þorlákshöfn þarf þrjá, ÍR þarf fjóra og KR þarf fimm sigurleiki.
Hvað sæti í úrslitakeppninni varðar þá hefur þurft frá upphafi 9,2 sigra til að tryggja sér þátttökurétt í henni. Meðaltalið hækkar upp í 9,3 á síðustu 10 árum en miðgildið hefur alltaf verið 9. Hæsta gildið var 2017 þegar Njarðvík náði ekki inn í úrslitakeppni með 10 sigurleiki.
Af þeim liðum sem eru í sætum 7-10 þarf Grindavík tvo sigurleiki í viðbót til að koma sér í úrslitakeppnina, Stjarnan þarf þrjá, Höttur þarf fjóra og Þór Þorlákshöfn þarf fimm.
Hvað fjórða sætið varðar og heimavallarréttindi tryggð í fyrstu umferð úrslitakeppninnar hefur þurft að meðaltali 14,3 sigurleiki en á seinustu 10 árum er meðaltalið 14,0. Miðgildið er og hefur alltaf verið 14 sigurleikir. Hæsta gildið var 2007 þegar efstu fjögur sætin stungu alveg af og fjórir sigurleikir skildu fjórða og fimmta sætið af. Á seinustu 10 árum hefur hæsta gildið 15 komið fjórum sinnum fyrir og síðast 2019 þegar KR náði ekki fjórða sæti þrátt fyrir að vera með jafnmarga sigra og Keflavík eða 15. Keflavík hélt fjórða sætinu með hærri stigamun í innbyrðis viðureignum liðana sem skiptu með sér sínum hvorum sigrinum í deildinni.
Af þeim liðum í fjórum efstu sætunum þarf Keflavík þrjá sigurleiki til að halda sér í efstu fjórum sætunum, Valur þarf einnig þrjá sigurleiki, Njarðvík þarf fjóra og Haukar þurfa einnig fjóra sigurleiki.