Emelía Ósk Gunnarsdóttir, framherji Keflavíkur, var ekki sérlega sátt við tap gegn Haukum í kvöld. Þær töpuðu 80-73 í leik þar sem barátta og vilji var í forgrunni. Það gæti jafnvel verið að of mikill vilji og of lítil skynsemi hafi ráðið ríkjum, en töpuðu Keflvíkingar 23 boltum í leiknum. Emelía vildi hins vegar heldur líta á slakan varnarleik síns liðs.
„Mér fannst vanta vörnina, þær gátu gert það sem þær vildu, skoruðu þegar þær vildu og komust auðveldlega fram hjá okkur,“ sagði Emelía um hvað hefði gengið illa hjá Keflavík í kvöld.
Keflavík átti ágætis áhlaup undir lok leiksins og skaut Haukum skelk í bringu með því að minnka muninn í fimm stig á lokametrum leiksins. Þær gátu þó ekki komist nær. „Það var svolítið seint að reyna bjarga þessu á lokamínútunum,“ sagði Emelía um lokakafla leiksins. „Það vantaði eiginlega ekki upp á síðustu tvær mínúturnar, frekar seinustu tuttugu mínúturnar,“ sagði hún, enda skoruðu Keflvíkingar aðeins sex stig í þriðja leikhluta og þurftu því að klóra sig upp úr dálítið djúpri holu í fjórða leikhluta.
Daniella Morillo átti slakan skorleik fyrir sitt lið í kvöld en leit út eins og hún ætlaði að bæta upp fyrir það í lokafjórðungnum þegar henni var skipt aftur inn á. Á 90 sekúndum skilaði hún tveimur stolnum boltum, tveimur stigum, stoðsendingu og frákasti en þurfti að yfirgefa völlinn eftir að hún fékk högg á munninn sem blæddi úr. „Já, svolítið pirrandi. Ég hefði viljað að hún myndi bara sleikja þetta blóð og láta dómarana ekki sjá þetta,“ sagði Emelía um atvikið. Daniella náði að spila nokkrar sóknir áður en dómarar tóku eftir að það blæddi úr vörinni hennar og hún þurfti að skipta út af. Morillo gat ekki verið meira með í leiknum.
Þá eru Keflvíkingar búnir að tapa tveimur leikjum af þrem eftir áramót og leikurinn sem sigraðist var m.a.s. ekki sérlega sannfærandi. Hvað er að sjá Suðurnesjastelpurnar og hvernig útskýrir Emelía þetta? „Mér finnst við oft eiga erfitt með að skora og ætli sumar séu ekki bara ennþá í smá jólafríi, virðist,“ sagði hún en hafði fulla trú á að liðið færi að sýna sitt rétta andlit von bráðar. „Þurfum bara að rífa okkur aðeins betur í gang,“ sagði hún að lokum og hélt inn í klefa.