Grindavík lagði Íslandsmeistara Þórs í kvöld í Subway deild karla, 91-95. Eftir leikinn er Þór með 16 stig í 2. sæti deildarinnar á meðan að Grindavík er í 3. sætinu með 14 stig.
Gangur leiks
Gestirnir úr Grindavík byrjuðu leik kvöldsins betur. Leiddu eftir fyrsta leikhluta með 6 stigum, 17-23, þar sem að mikið fór fyrir miðherjanum Ivan Aurrecoechea, en hann setti 9 stig og tók 7 fráköst á þessum upphafsmínútum leiksins. Heimamenn ná þó yfirhöndinni snemma í öðrum leikhlutanum, byggja sér upp smá forystu undir lok hálfleiksins og eru 6 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja, 45-39.
Atkvæðamestur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Daniel Mortensen með 19 stig, 5 fráköst og Glynn Watson bætti við 7 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum. Fyrir Grindavík var Ivan bestur með 11 stig, 7 fráköst og Naor Sharon bætti við 10 stigum og 4 fráköstum.
Þórsarar gera vel í að halda muninum í upphafi seinni hálfleiksins. Grindvíkingar gera heiðarlega atlögu að forystunni, Þór þó enn 10 stigum yfir eftir þrjá leikhluta, 75-65. Grindvíkingar vinna forystuna svo hægt og bítandi niður í fjórða leikhlutanum og ná að jafna leikinn þegar 4 mínútur eru eftir, 83-83. Undir lokin ná þeir svo að lokum að vera skrefinu á undan og vinna að lokum með 2 stigum, 91-93.
Kjarninn
Eftir frekar erfiða byrjun á leiknum tóku Íslandsmeistararnir við sér undir lok fyrri hálfleiksins og náðu að vera með yfirhöndina lungan úr leiknum. Undir lokin nær Grindavík þó að sigla framúr og loka leiknum með stórum körfum frá Ólafi Ólafssyni og Naor Sharon. Gífurlega sterkur sigur fyrir Grindavík, sem fyrir leik kvöldsins höfðu tapað tveimur leikjum í röð í deildinni gegn ÍR og Keflavík.
Atkvæðamestir
Naor Sharon var bestur í liði Grindavíkur í dag með 21 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar. Fyrir heimamenn í Þór var Daniel Mortensen atkvæðamestur með 32 stig og 9 fráköst.
Hvað svo?
Grindavík á leik næst 6. janúar gegn Þór á Akureyri á meðan að Þór leikur degi seinna gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni.