Breiðablik lagði Val fyrr í kvöld í Subway deild karla, 89-87. Eftir leikinn er Valur í 6. sætinu með 10 stig á meðan að Breiðablik er í 8. sætinu, einum leik fyrir aftan, með 8 stig.
Karfan spjallaði við Finn Frey Stefánsson þjálfara Vals eftir leik í Smáranum.
Það var ansi mikill munur á þessum leik og þeim síðasta hjá ykkur í bikarnum gegn Njarðvík?
Jájá, mikill munur á leikstílum, Blikar hafa bara verið að gera mjög vel í allan vetur með þessum stíl svo þeir fá bara hrós fyrir sína frammistöðu í kvöld.
Einmitt, þeir hafa bara verið nokkuð góðir í vetur þó svo að stigin hafi bara verið 6 fyrir þennan leik…og þú hefur tæplega búist við einhverjum auðveldum leik hérna í kvöld?
Neinei, alls ekki, við vissum að þetta yrði erfiður leikur og vissum að þetta yrði leikur þar sem tveir ólíkir leikstílar mætast. Blikar höfðu bara betur í kvöld.
Þið voruð vissulega að spila á mánudag…skiptir það einhverju máli?
Það er alveg hægt að finna eða búa til einhverjar ástæður en þegar öllu er á botninn hvolft þá gerðum við okkur besta í kvöld og lögðum okkur fram en þetta var bara ekki alveg nógu gott. Hlutir sem hafa einkennt okkur voru ekki alveg til staðar, þetta var skárra í seinni hálfleiknum en svona heilt yfir var þetta ekki nógu gott.
Blikar voru náttúrulega að spila ákveðna varnartaktík, sem mér skilst að sé nú hálfpartinn í tísku, að gefa ákveðnum mönnum þriggja stiga skotið og jafnvel af millifærinu. Meira að segja Lawson fékk galopin skot aftur og aftur. Sástu þetta fyrir?
Jájá, þeir notuðu þessa taktík aðeins á móti Tindastól og á móti Vestra svo þetta er eitthvað sem við bjuggumst alveg við að kæmi. Þetta er öðruvísi stíll og kannski er það erfiðasta við hann að maður er ekki vanur að spila á móti þessu. Það voru fullt af holum þarna sem við vorum að finna en það vantaði kannski stöðugleika í því að leita á sömu staðina. Við nýttum okkur það kannski ekki nógu vel að halda Callum bara fyrir utan þarna í fjórða leikhlutanum og það er hægt að finna einhver svona atriði.
Nú jafnaðist frákastabaráttan í seinni hálfleik, þið voruð einhverjum 7 fráköstum yfir eða svo í hálfleik…fráköstin eru kannski eitthvað sem þitt lið ætti að hafa yfirburði í gegn Blikum?
Já…það er kannski ekki ástæða til að lesa of mikið í það miðað við aðra leiki í svona leik, þeir taka mikið af snöggum skotum sem þýðir að það koma snögg löng fráköst og það er svona öðruvísi fráköst. Svo voru það vissulega sóknarfráköst hérna í lokin sem Blikar taka og það drepur okkur áður en Everage setur þetta erfiða skot í horninu. Ef við hefðum náð því frákasti, sem var stærsta frákstið í leiknum, hefðum við kannski tekið þetta!
Nákvæmlega, svona gengur þetta í boltanum. Hvað er næsti leikur hjá ykkur?
Nú er smá jólapása en svo eigum við KR á heimavelli á milli jóla og nýárs. Það er bara líf og fjör!
Heldur betur! Það verður veisla!