spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaBlikar ætla að vera með í vetur!

Blikar ætla að vera með í vetur!

Blikar og Valsmenn settu 10. umferð Subway-deildarinnar af stað í Smáranum í kvöld. Heimamenn spila skemmtilegan bolta eins og oft áður en sem meira er hefur það skilað þeim 6 stigum nú þegar. Liðið er líklegt til að halda sæti sínu í deildinni að þessu sinni og sigur gegn heitum Valsmönnum myndi vera gott skref í þá átt. Hlíðarendapiltar hugsa hins vegar stórt og ætla sér að berjast um titilinn svo sigur í kvöld er eitthvað í ætt við skyldu.

Kúlan: ,,Blikar Valur? Iss, það sjá það allir. Blikar verða inn í þessu en tapa að lokum, 86-92.“

Byrjunarlið

Breiðablik: Hilmar, Prescott, Everage, Danero, Sigurður

Valur: Kristó, Hjálmar, Pablo, Pavel, Lawson

Gangur leiksins

Hilmar opnaði leikinn með dæmigerðum Blikaþristi og Blikar leiddu fyrstu mínúturnar með nokkrum stigum. Valsmenn nýttu hæð sína og styrk ágætlega í fjórðungnum, tóku allnokkur sóknarfráköst og það leit út fyrir að Prescott myndi eiga frekar erfiða kvöldstund í vændum gegn Kristó undir körfunni. Ljóst var að varnarplan Blika snerist um það að gefa leikmönnum eins og Pavel, Hjálmari, Kristó og fleirum skotið og meira að segja lék Lawson lausum hala sem einhverjir myndu kalla djarft. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 28-25, mikill hraði og mikið skorað eins og Blikar vilja hafa það.

Það var áfram allt í járnum allan annan leikhlutann, enn mikill hraði í leiknum og mikið skorað. Aftur og aftur fengu ákveðnir leikmenn gestanna eilífðina sjálfa til að taka þriggja stiga skot og stundum freistuðust menn í skotið án árangurs. Blikar láta hins vegar ekki bjóða sér hálfopið þriggja stiga skot tvisvar og voru það einkum bræðurnir stórgóðu, Hilmar og Sigurður, sem smelltu þeim nokkrum niður. Eftir umtalsvert magn af misgóðum þriggja stiga skotum og talsverðu dómaratuði beggja liða leiddu heimamenn 54-53 í hálfleik. Gestirnir höfðu tekið 22 fráköst á móti 16 sem ætti ekki að hafa komið neinum á óvart en stórgóð 50% þriggja stiga nýting Blika bætti það upp ef svo má segja.

Valsarar hófu síðari hálfleik betur og komust í 56-62. Lítið vildi niður hjá heimamönnum fyrstu mínúturnar og þegar Blikaliðið klikkar á 4-5 þriggja stiga skotum í röð, og sum hver e.t.v. ótímabær, lítur þetta einhvern veginn ekki vel út hjá liðinu. Pavel setti svo þrist eftir dulitla umhugsun þegar tæpar 4 mínútur voru eftir af þriðja og setti stöðuna í 61-67 og tilfinningin var sú að Kúlan myndi loksins þjóna hlutverki sínu og spá rétt, að mulningsvél Vals myndi kremja þessi 2 stig til sín. Gestirnir sigldu þó ekki frekar framúr og staðan var 68-73 eftir þrjá.

Það stefndi allt í fyrrnefnda átt í byrjun fjórða. Hjálmar tók upp á því að setja þrist og kom sínum mönnum í 68-76 þegar 8 mínútur voru eftir. Það reyndist stærsta forskotið í öllum leiknum því Blikar svöruðu bara með 7 stigum í röð og Finnur tók leikhlé þegar 5:48 voru eftir. Aðeins hægðist á stigaskorinu í síðari hálfleik enda allt í járnum og spennandi leikur í gangi. Everage hafði kannski ekki átt sinn besta leik fram að þessu en þegar 4 mínútur voru eftir setti hann körfu góða og kom heimamönnum aftur yfir, 81-80! Prescott henti svo svaðalegum þristi niður einhverju síðar og Pétur tók leikhlé í stöðunni 84-80 þegar 2:22 voru eftir. Það voru þó gestirnir sem áttu næstu 5 stig, þristur frá Lawson og gegnumbrot frá Kára, 84-85 og mikil spenna í húsinu. Kári kom svo Val aftur yfir á línunni skömmu síðar í 86-87. Everage reyndist hins vegar hetja leiksins og setti sinn eina þrist í leiknum þegar 18 sekúndur voru eftir! Kári átti mislukkað gegnumbrot í kjölfarið og fékk annan séns frá miðju á síðustu sekúndunni en allt kom fyrir ekki, Blikar lönduðu frábærum sigri 89-87!

Menn leiksins

Þetta var góður liðssigur Blika í kvöld. Allt byrjunarliðið skilaði sínu af stakri prýði sem og Árni og Sveinbjörn af bekknum. Prescott var stigahæstur með 21 stig en Everage setti 17 og 3 mikilvægustu stig leiksins!

Í raun er ekki hægt að segja að liðsmenn gestanna hafi spilað illa enda bara 2 stig á milli liðanna. Kristó var frábær eins og alltaf í vetur, setti 19 stig og tók 11 fráköst. Kári átti líka fínan leik og hitti vel. Pavel var svo tveimur stigum frá þrennunni, tók 13 fráköst og gaf 11 stoðsendingar!

Kjarninn

Blikaliðið hefur spilað skemmtilegan bolta undanfarin ár og á köflum góðan bolta en þurft að sætta sig við ansi fá stig í úrvalsdeildinni og fall aftur og aftur. Það hlýtur að reyna mikið á alla sem koma að liðinu en nú er ástæða til að fagna! Liðið hefur nú halað inn 8 stigum og er bara ansi líklegt til að bæta allnokkrum við í vetur. Í spjalli við Pétur Ingvars eftir leik kom fram að Blikar eru að skoða sín leikmannamál, gætu mögulega bætt 1-2 leikmönnum í hópinn og hver veit hvað gerist ef það heppnast vel.

Byrjunarliðsmenn Vals áttu bara fínan leik í kvöld fyrir utan Pablo sem setti aðeins 5 stig á töfluna, jafn lítið og bekkur liðsins. Finnur vissi vel að búast mátti við þeirri varnartaktík sem Blikar spiluðu í kvöld en liðið náði ekki að leysa það nægilega vel og nýta styrkleika sína betur, þ.e. hæð og styrk. Talað er um að það sé í tísku að gefa ákveðnum leikmönnum opin skot í körfuboltanum í dag – kannski ætti Finnur að koma á fundi með Danna og Baldri, og hugsanlega einhverjum fleirum, til að fara yfir þessi mál og finna lausnir.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -