spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaKvennalið Skallagríms dregur sig úr keppni

Kvennalið Skallagríms dregur sig úr keppni

Körfuknattleiksdeild Skallagríms tilkynnti rétt í þessu að þau hafi tekið þá ákvörðun að draga kvennalið Skallagríms úr keppni í Subway deildinni.

Stjórn deildarinnar ber við vandræðum í mönnum á liðinu og að illa hafi líka gengið að manna meistaraflokksráð sem væri forsenda þess að halda starfinu gangandi.

Skallagrímskonur höfðu átt erfitt tímabil hingað til, þær voru án sigurs eftir 11 leiki og töpuðu leikjum sínum að meðaltali með 32 stigum. Liðið hafði losað sig við Goran Milijevic, þjálfara liðsins, fyrir nokkrum vikum síðan en árangurinn batnaði lítið við það. Leikmenn höfðu bæst í hópinn eftir brottför Gorans en fyrirliði liðsins, Embla Kristínardóttir, hafði dregið sig úr liðinu vegna hans og síðar meir tilkynnti hún að hún væri með barni og gæti því ekki spilað fyrir liðið.

Ljóst er að þessi ákvörðun Borgnesinga gæti riðlað leikjaskipulagi Subway deildarinnar og að þetta hafi afdrifaríkar afleiðingar fyrir Skallagrímsliðið.

Fréttir
- Auglýsing -