Stjarnan lagði ÍR í 14. umferð Subway deildar karla, 94-76. Eftir leikinn er Stjarnan í 8. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan að ÍR er í 10. sætinu með 6 stig.
Karfan ræddi við Friðrik Anton Jónsson sem átti stórgóðan leik fyrir Stjörnuna í kvöld, en hann skilaði 16 stigum og 10 fráköstum á tæpum 19 mínútum spiluðum:
Loksins gastu eitthvað!
“Já!“
Af hverju byrjaðir þú ekki bara á þessu strax?
“Ja…eins og flestir vita þá var ég í fyrstu deildinni í fyrra og það er smá munur á fyrstu og efstu deild…og það tekur bara smá tíma fyrir mig að venjast þessu. Ég hitti loksins, það hjálpar!“
Jájá, það er vissulega nokkur hluti af þínum leik, þú hefur sýnt að þú ert góð skytta. En hver er munurinn á deildunum…meiri hraði væntanlega…?
“Já, vissulega, leikurinn er hægari í fyrstu deildinni, allt gerist ansi hratt í úrvalsdeildinni. Leikmennirnir eru auðvitað líka bara talsvert betri, ég er að keppa á móti alvöru atvinnumönnum í úrvalsdeildinni, ekkert diss á fyrstudeildarleikmennina en þeir eru betri í efstu deildinni…“
Einmitt, þeir eru eðlilega svona almennt séð betri…Þú kannski lendir stundum í smá vandræðum varnarlega með hraðann hérna í úrvalsdeildinni, t.d. á móti fljótum fjörkum og slíkt…en það er kannski rugl í mér?
“Það er nú bara hárrétt hjá þér, ég er með múrsteinafætur eins og þeir segja! En ég reyni að vinna í því á hverju sumri að auka hraðann.“
Jájá…það hafa nú fáir allt, þú hefur nú styrk, nautsterkur djöfull, og þú getur alveg raðað þeim eins og þú sýndir í dag, gaman að sjá það. En hvernig líst þér á liðið og framhaldið? Hvað geta Stjörnumenn gert mikið í vetur?
“Ef við mætum svona klikkaðir í leiki með góða orku þá eigum við að geta unnið öll lið. Við erum með drullugóðan hóp, ég þarf bara að mæta svona alltaf, vera klikkaður í fráköstunum í vörninni, gera minn part og koma með góða orku, eins og aðrir auðvitað líka.“
Akkúrat, og liðið hefur breyst sennilega til góðs, Dagur er kominn…hvernig er þessi Kani, getur hann eitthvað?
“Hann er búinn að æfa með okkur síðan hann kom til landsins í byrjun janúar…ef þú segir að ég sé nautsterkur þá er hann nautnautsterkur sko! Mér líst mjög vel á hann og ég hlakka til að spila með honum.“
Er hann ágætlega hreyfanlegur líka?
“Já, mjög hreyfanlegur.“
Akkúrat. Það hlýtur að vera bjart yfir Stjörnumönnum eftir þennan sigur, þetta var fallegur sigur einhvern veginn, ertu ekki sammála mér um það?
“Já, ég er sammála því, ég er alla vega mjög bjartur!“