spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNjarðvíkingar náðu í tvö stig í Síkinu

Njarðvíkingar náðu í tvö stig í Síkinu

Tindastóll tók á móti Njarðvíkingum í Subway deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Leikurinn var fyrsti heimaleikur Stóla eftir að Pavel Ermolinski tók við þjálfun liðsins.

Leikurinn fór vel af stað með hörku baráttu beggja liða og menn virtust reiðubúnir í átökin. Tindastóll tók frumkvæðið með góðum körfum frá Taiwo Badmus en Njarðvík svaraði með þristi og þeir áttu eftir að verða fleiri. Stólar héldu forystu fram leikhlutann og náðu 17-11 forystu um hann miðjan með góðri körfu frá Sigga Þorsteins. Þessi munur hélst út leikhlutann sem endaði 24-18 fyrir heimamenn. Annar leikhlutinn hófst með 11 stiga áhlaupi gestanna og heimamenn komust ekki á blað fyrr en rúmar 4 mínútur voru liðnar þegar Keyshawn setti þrist. Njarðvíkingar svöruðu með 8-2 spretti og Pavel tekur leikhlé í stöðunni 29-37 eftir þrist frá Mario. Leikurinn jafnaðist aðeins þangað til Ólafur Helgi setti 2 þrista og Oddur skaut einum á milli og heimamenn virtust þegar byrja að hengja haus enda var sama hverju gestirnir hentu upp, allt fór ofaní. Staðan 41-51 í hálfleik og Njarðvíkingar unnu því fjórðunginn 17-33, ótrúlegar tölur eftir jafnan fyrsta fjórðung.

Seinni hálfleikurinn fór svipað af stað og annar leikhlutinn, Njarðvík skoraði fyrstu 8 stigin og heimamenn komust ekki á blað fyrr en rúmar 4 mínútur voru liðnar þegar Drungilas setti þrist. Stemningin var samt góð í Síkinu þrátt fyrir 18 stiga mun og loks virtust leikmenn Stólanna smitast af henni og fóru að saxa á forskotið hægt og bítandi. Fallegt skot frá Keyshawn kom stöðunni í 59-65 fyrir lokafjórðunginn og allt opið. Gestirnir frá Njarðvík eru með geysilega sterkt og reynslumikið lið og náðu að halda heimamönnum aðeins frá sér meginhluta síðasta fjórðungsins og þegar 5 mínútur voru eftir var munurinn 10 stig, 73-83. Pavel tók leikhlé og í kjölfarið kom góður sprettur heimamanna og þegar rétt tæpar 3 mínútur lifðu leiks kom fallegur þristur frá Pétri Rúnari  muninum niður í 3 stig, 82-85 og allt á suðupunkti í Síkinu. Fagmannleg frammistaða Hauks Helga, Basile og Richotto sá þó til þess að heimamenn komust ekki nær og Njarðvík landaði sanngjörnum sigri 86-94.

Hjá Tindastól var Keyshawn Woods allt í öllu með 27 stig og 29 framlagspunkta. Aðrir áttu spretti, Taiwo skilaði fallegum stemningstroðslum og 13 stigum en liðið saknar framlags frá Arnari Björns sem heldur áfram að ströggla. Gestirnir voru að hitta vel og stigaskorið dreifðist jafnar, 5 leikmenn skiluðu 10 stigum eða meira í leiknum. Nico var stigahæstur með 20 stig og skilaði 8 stoðsendingum að auki, 27 í framlag.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -