Fjölnir lagði Hauka heima í Dalhúsum í kvöld í Subway deild kvenna, 77-59. Eftir leikinn er Fjölnir í 1.-2. sæti deildarinnar með 16 stig líkt og Njarðvík á meðan að Haukar eru í 5. sætinu með 8 stig.
Fyrir leik
Var þetta í annað skiptið sem að þessi lið mætast á stuttum tíma, en fyrir nákvæmlega viku síðan hafði Fjölnir sigur á Haukum í Ólafssal. Ólíkt leiknum í kvöld, þá voru það Haukar sem leiddu þann leik mestmegnis, en Fjölnir kom til baka og vann á lokamínútunum.
Gangur leiks
Það er óhætt að segja að heimakonur hafi komið grimmari til leiks. Gjörsamlega slátra fyrsta leikhlutanum, 24-8, þar sem að Sanja, Dagný og Aliyah virtust geta gert það sem þær vildu sóknarlega og Haukar voru að skjóta 3 af 25 af vellinum. Haukakonur virðast svo aðeins ná áttum í öðrum leikhlutanum, hlaða í ágætis áhlaup, sem Fjölnir nær þó að kveða niður. Staðan 39-25 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.
Atkvðamestar í fyrri hálfleiknum fyrir heimakonur voru Aliyah Mazyck með 15 stig, 5 fráköst og Dagný Lísa Davíðsdóttir með 11 stig og 9 fráköst.
Fyrir Hauka var Lovísa Björt Henningsdóttir sú eina sem virtist með einhverju almennilegu lífsmarki sóknarlega, skilaði 11 stigum í fyrri hálfleiknum.
Haukakonur koma sterkar inn í seinni hálfleikinn. Ná hægt og örugglega að vinna niður mun heimakvenna í þriðja leikhlutanum. Komast fimm stigum næst þeim, 48-43. Fjölnir svarar því með áhlaupi og eru 17 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 62-45. Fjórði leikhlutinn virtist svo bara vera ákveðið formsatriði. Öruggur 77-59 Fjölnissigur að lokum.
Kjarninn
Haukaliðið virtist hálf ráðalaust sóknarlega á löngum köflum í leik kvöldsins. Helena Sverrisdóttir enn frá vegna meiðsla og það virðist dauðanum erfiðara fyrir þær að finna leikmenn til þess að stíga upp í fjarveru hennar. Fyrir utan Lovísu kannski, sem var að skila sínu, en gegn sterku liði eins og Fjölni þurfa þær meira en það.
Þá er líka hægt að hrósa Fjölni. Langt frá því að vera fullkominn leikur hjá þeim, en þær virðast vera að sækja í sig veðrið. Umdeilanlega með eitt besta byrjunarlið landsins þessa dagana. Eiga líklega bara eftir að klifra lengra upp töfluna á næstu vikum.
Atkvæðamestar
Dagný Lísa Davíðsdóttir var frábær fyrir Fjölni í kvöld. Á rúmum 37 mínútum spiluðum skilaði hún tröllatvennu, 25 stigum og 20 fráköstum.
Fyrir Hauka var Lovísa Björt Henningsdóttir best með 16 stig og 3 fráköst.
Hvað svo?
Bæði lið leika næst komandi miðvikudag 8. desember. Fjölnir mætir Skallagrím í heimsókn á meðan að Haukar fá Grindavík í heimsókn.