Dúi Þór Jónsson, leikmaður Þórs Akureyrar, var til tals hjá Atla Arasyni í hlaðvarpsþættinum Undir Körfunni á dögunum. Dúi fór þar yfir feril sinn til þessa, skiptin til Þórs frá Stjörnunni og margt fleira.
Dúi yfirgaf uppeldisfélagið sitt Stjörnuna fyrir tímabilið og gekk til liðs við Þór Akureyri. Dúi talaði við nokkur lið en var alveg sannfærður þegar Bjarki Ármann, þjálfari Þórs Akureyrar, hafði samband. Dúi yfirgaf Stjörnuna í leit af meiri spilatíma.
„Ég hef verið back-up point guard hjá Stjörnunni í þessi fjögur ár sem ég var þar í meistaraflokki,“ sagði Dúi.
„Ég talaði við þrjú til fjögur lið en mig langaði að stíga næsta skref og vera lykilmaður í liði. Þegar Bjarki hefur samband við mig í sumar þá verð ég strax heitur því ég þekki þetta lið og alla strákanna mjög vel. Ég tók mér smá tíma til að hugsa og taldi þetta vera rétta ákvörðun. Akureyri kom mér verulega á óvart. Það er allt til alls þarna og stemningin er góð á Akureyri.“
Dúi þekkti liðið hjá Þór mjög vel áður en hann skipti yfir en 2001 árgangurinn sem hann tilheyrir var meðal þeirra bestu á landinu í gegnum yngri flokkana hjá Stjörnunni og Þór. Léku liðin til margra úrslitaleikja um Íslandsmeistara titilinn í minni bolta.
„Ég grínaðist með það þegar ég skrifaði undir hjá Þór að ég hef ekki spilað á móti einu liði jafn oft og Þór Akureyri þannig ég þekki þetta lið alveg inn og út. Það er virkilega gaman að fá að vera með þessum strákum í liði. Þetta voru liðsfélagar mínir í yngri landsliðunum og svona, það er bara skemmtilegt að koma og hitta þá. Þeir hjálpuðu mér að komast inn í samfélagið á Akureyri.“
Það hefur verið eitthvað í umræðunni að ungir leikmenn sem fá ekki að spila mikið með liðum sínum í höfuðborginni að þeir ættu frekar að taka slaginn með liðum í landsbyggðinni. Dúi tekur undir þetta og hvetur alla yngri leikmenn á stórhöfuðborgarsvæðinu í leit af meiri spilatíma að taka slaginn með einhverju lið á landsbyggðinni ef kostur gest.
„Hingað til hefur þetta verið hárrétt skref, ekki bara körfuboltalega séð heldur líka bara að búa einn og sjá um sig sjálfur og við þann vanda sem því fylgir, að þvo þvottinn sinn sjálfur og að sjá um matinn og allt svoleiðis. Þetta er þroskandi og hingað til hefur þetta verið rétt ákvörðun. Ég hvet alla unga ef þeir hafa kost á því, þá er þetta klárlega rétt skref. Það er mikill reynsla sem maður tekur úr þessu,“ sagði Dúi Þór Jónsson, leikmaður Þórs Akureyrar. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild með því að smella hér.