Íslandsmeistarar Vals lögðu Breiðablik í kvöld í Smáranum í Subway deild kvenna, 72-99.
Eftir leikinn er Valur í 4. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan að Breiðablik er í 7. sætinu með 2 stig.
Lokatölur leiksins gefa mögulega ekki alveg rétta mynd af því hvernig leikurinn spilaðist. Munurinn fyrir fjórða leikhlutann var aðeins 7 stig, en þann fjórða vann Valur mjög svo örugglega 14-34 og uppskar því þennan þægilega 27 stiga sigur, 72-99.
Atkvæðamest fyrir heimakonur í leiknum var nýr leikmaður þeirra Michaela Lynn Kelly með 31 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Þá bætti Iva Georgieva við 12 stigum og 8 fráköstum.
Fyrir Íslandsmeistarana var Ameryst Alston atkvæðamest með 31 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar. Í nokkuð jöfnu liði Vals kom Dagbjört Dögg Karlsdóttir henni næst með 21 stig og 5 fráköst.