spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaFjölnir lagði Keflavík í fjörugum leik

Fjölnir lagði Keflavík í fjörugum leik

Fjölnir lagði Keflavík í kvöld í Blue Höllinni í Subway deild kvenna, 92-95.

Eftir leikinn er Fjölnir í 2. sæti deildarinnar með 14 stig á meðan að Keflavík er í 4. sætinu með 12 stig.

Gangur leiks

Fjölniskonur mættu mun betur stemmdar til leiks í dag. Byggja sér snemma upp þægilega 10 stiga forystu, en leikhlutinn endar 10-20, þar sem að Dagný Lísa Davíðsdóttir setti 11 stig í þeim fyrsta. Keflavík kemst þó í betri takt við leikinn í öðrum leikhlutanum. Hægt og rólega vinna þær forskot gestanna niður, en eru enn 4 stigum undir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 40-44.

Atkvæðamest heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Daniela Morillo með 17 stig og þá bætti Eygló Kristín Óskarsdóttir við 11 stigum. Fyrir gestina úr Grafarvogi var Dagný Lísa stórkostleg í fyrri hálfleiknum, 19 stig og 9 fráköst.

Fjölnir setur fótinn svo aftur á bensíngjöfina í upphafi seinni hálfleiksins. Ólíkt áhlaupinu sem þær áttu í upphafi leiks, var það ekki Dagný Lísa sem leiddi það heldur bakvörður þeirra Aliyah Mazyck. Keyra aftur framúr og eru 14 stigum yfir eftir þrjá leikhluta, 57-71. Fjölnir heldur svo forskoti sínu lengi vel í fjórða leikhlutanum. Keflavík nær þó góðu áhlaupi þegar um 2-3 mínútur eru eftir og eru aðeins 2 stigum undir þegar tæpar 2 mínútur eru eftir, 82-84. Ná svo að jafna leikinn þegar ein og hálf er eftir, 84-84. Fjölnir heldur haus í lokasóknum sínum í leiknum, með stórum þrist frá Sanja og góðum ferðum á línuna ná þær að kreista út sigur, 93-95.

Kjarninn

Barátta efstu liða deildarinnar virðist vera að harðna. Eins og staðan er í dag eru það fimm lið sem eiga góða möguleika á því að enda í efstu fjórum og komast í úrslitakeppnina. Það er ekkert rosalega mikið sem skilur þessi fimm lið að og því eru leikir eins og þessi gífurlega mikilvægir fyrir liðin ætli þau sér ekki að verða þetta eina lið sem verður eftir. Þannig séð þó nóg af leikjum eftir, en miðað við hvað liðin eru áþekk, getur það verið verra að dragast aftur úr.

Kannski fyrir utan Daniela voru lykilmenn Keflavíkur ekki að skila því sem þær hafa oft verið að gera í vetur. Á meðan áttu Dagný Lísa og Aliyah algjöra stjörnuleiki fyrir Fjölni. Varnarlega réðu Keflavík bara ekkert við þær og þessvegna fór leikurinn eins og hann fór.

Atkvæðamestar

Atkvæðamest í liði Keflavíkur í dag var Daniela Morillo með 29 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir Fjölni var Dagný Lísa Davíðsdóttir best með 30 stig og 13 fráköst.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik komandi sunnudag 5. desember. Fjölnir fær Hauka í heimsókn á meðan að Keflavík heimsækir Grindavík.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -