Fjölnir lagði heimakonur í Haukum í dag í spennuleik í Ólafssal, 72-77. Eftir leikinn er Fjölnir í 2.-4. sæti deildarinnar með 12 stig líkt og Keflavík og Valur á meðan að Haukar eru í 5. sætinu með 8 stig.
Gangur leiks
Leikurinn var í miklu jafnvægi á fyrstu mínútunum. Liðin skiptust á snörpum áhlaupum, en þegar líða fór á fyrsta leikhlutann náðu heimakonur í Haukum að vera skrefinu á undan. Staðan eftir fyrsta 24-20. Haukakonur ná svo með herkjum að halda í forskot sitt undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan 40-36.
Atkvæðamest heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Tinna Guðrún Alexandersdóttir með 15 stig og 3 fráköst. Fyrir Fjölni var Sanja Orozovic atkvæðamest með 13 stig og 6 fráköst.
Með tveimur þristum frá Iva Bosnjak nær Fjölnir að jafna leikinn aftur á fyrstu mínútum seinni hálfleiksins. Leikurinn er svo stál í stál í fþriðja leikhlutanum, þar sem nokkuð bar á óánægju þjálfara og leikmanna með dómara leiksins, en lykilleikmenn beggja liða voru komnir með fjórar villur á þessum tímapunkti, Aliyah Mazyck Fjölni og Lovísa Björt Henningsdóttir og Haiden Palmer hjá Haukum. Haukar ná þó áfram að vera ögn á undan fyrir lokaleikhlutann, 56-54. Haukar slíta sig svo aðeins frá gestunum á upphafsmínútum þess fjórða og eru 9 stigum yfir þegar að 6 mínútur eru eftir af leiknum. Með hjálp vel skipulagðrar svæðisvarnar nær Fjölnir að snúa leiknum sér í vil á lokamínútunum. Vinna niður mun heimakvenna og vinna leikinn að lokum nokkuð þægilega, 72-77.
Kjarninn
Haukar eiga eftir leikinn enn nokkra leiki til góða á flest lið í deildinni, en þær hafa þurft að fresta mikið af sínum leikjum vegna þátttöku í riðlakeppni FIBA EuroCup. Hefðu með sigri náð að jafna Fjölni að stigum í 4. sætinu, en eru eftir hann tveimur sigurleikjum frá þeim, Keflavík og Fjölni sem eru í 2.-4. sætinu. En eins og tekið var fram, eiga leiki inni sem þær þurfa að klára ætli þær sér ekki að heltast úr lestinni.
Leikurinn í dag nokkuð stórt próf fyrir Fjölni og má segja að þær hafi staðist það. Mjög heppilegt samt hvað þetta datt með þeim í lokin. Eltu nánast allan leikinn og kláruðu vel. Sem er svosem mikið til saga þeirra í vetur. Eru góðar í þessu, 3-0 í jöfnum leikjum í vetur.
Atkvæðamestar
Fyrir heimakonur í Haukum var Tinna Guðrún Alexandersdóttir best, skilaði 27 stigum, 4 fráköstum og þá bætti Lovísa Björt Henningsdóttir við 14 stigum og 7 fráköstum.
Fyrir Fjölni var það Iva Bosnjak sem dró vagninn með 19 stigum, 8 fráköstum og 4 stolnum boltum. Þá bætti Sanja Orozovic við 19 stigum og 12 fráköstum.
Hvað svo?
Fjölnir á næst leik þann 1. desember gegn Keflavík í Blue Höllinni á meðan að næsti leikur Hauka í Subway deildinni er þann 5. desember gegn Fjölni í Dalhúsum.