Það var grannaslagur í Gjánni í kvöld þegar Selfoss fékk Hamar í heimsókn. Þetta er var í annað skiptið sem liðin mætast í vetur, en þau mættust einnig í 1. umferðinni, en þá báru Selfoss sigur úr býtum. Selfoss endurtók leikinn í kvöld og unnu nauman sigur á grönnum sínum, 79-76.
Hamarsmenn settu tóninn strax í byrjun leiks og komust í stöðuna 9-17 um miðjan 1. leikhluta. Selfyssingar vöknuðu þá til lífsins og byrjuðu að saxa jafnt og þétt á Hamarsmenn. Selfyssingar skriðu framfyrir gestina í byrjun 2. leikhluta og byrjuðu að auka forskotið jafnt og þétt. Þeir nýttu færin sín betur og voru nokkuð sannfærandi í sóknarleiknum, á meðan gestunum gekk erfiðlega að finna hringinn. En helsti munurinn á liðunum lág í fráköstunum, en Selfyssingar voru með 21 frákast í fyrri helming leiksins á móti 13 fráköstum Hamars. Staðan 47-40 þegar liðin ganga inn í búningsklefa.
Selfss byrjaði 3. leikhluta að krafti og náðu strax að komast í 10 stiga mun, en þá sögðu gestirnir stopp. Hamar ná að halda Selfyssingum í 14 stigum í 3. leikhluta og eru nálægt því að jafna leikinn í lok leikhlutans, sem þeir afreka í byrjun 4. leikhluta. Leikurinn var mjög jafn í lokaleikhlutanum og lengi vel ómögulegt að spá um sigurvegara. En þegar tvær mínútur voru eftir, og Hamar 1 stigi yfir, steig Trevon Evans upp fyrir heimamenn og skorar tvær stórar þriggjastigakörfur í röð og kemur liði sínu í vænlega stöðu, 79-74. Selfyssingum gekk þó brösulega að halda boltanum í lokin þökk sé klaufalegum villum og mislukkuðum sendingum og fengu Hamarsmenn góð tækifæri til að jafna leikinn, en nýttu færin ekki og Selfoss vinnur leikinn 79-76.
Í liði Hamars var Dareial Franklin atkvæðamestur með 24 stig og 10 fráköst. Á eftir honum var Björn Ásgeir Ásgeirsson með 16 stig og rétt á eftir honum Maciek Klimaszewski með 15 stig. Joao Lucas 10 stig, Ragnar Magni Sigurjónsson 9 stig og Haukur Davíðsson 2 stig.
Hjá Selfossi var, sem svo oft áður, Trevon Evans atkvæðamestur með 34 stig. Gasper Rojko 17 stig, Óli Gunnar Gestson 10 stig, Vito Smojer 8 stig, Styrmir Jónasson 6 stig, Arnar Geir Líndal 2 stig og Sigmar Jóhann Bjarnason 2 stig.
Umfjöllun, myndir / Björgvin Rúnar