Keflavík lagði Hauka í kvöld í 17. umferð Subway deildar kvenna, 83-62. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 32 stig, 4 stigum á undan Val sem er í öðru sætinu með 28 stig og 6 stigum á undan Haukum sem eru í því þriðja með 26 stig.
Fyrir leik
Fyrir leik kvöldsins hafði Keflavík unnið báða deildarleiki á milli liðanna, en Haukar höfðu unnið þriðja leikinn, sem var úrslitaleikur VÍS bikarkeppninnar.
Keflavík fyrir leikinn tveimur sigrum og fjórum stigum fyrir ofan Hauka í öðru sætinu. Með 12 leiki eftir af tímabilinu voru þær því í kjörstöðu til þess að taka stórt skref í átt að deildarmeistaratitlinum. Nokkuð stórt í þeim skilning er að hafa unnið Hauka tvisvar áður, en til þess að Haukar myndu ná þeim og efsta sætinu þyrftu þær annaðhvort að vinna þremur fleiri leiki heldur en Keflavík í þessum 12 síðustu, eða tveimur fleiri, báða gegn Keflavík og samanlagt með 14 stigum eða meira, sem var stigamunurinn á innbyrðisviðureign liðanna fyrir leik kvöldsins.
Gangur leiks
Það voru gestirnir úr Hafnarfirði sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Ná að vera skrefinu á undan á upphafsmínútunum. Eru mikið til að gefa sóknarfráköst og auðveldar körfur, en eftir gott leikhlé virðist það alltsaman lagast hjá Keflavík. Þær vinna sig inn í leikinn og er staðan jöfn að fyrsta fjórðung loknum, 24-24. Í öðrum leikhlutanum er svo komið að heimakonum að vera skrefinu á undan. Með nokkuð þéttri vörn ná þær að búa til nokkra tapaða bolta, ná í einhver skipti að keyra í bakið á Haukum. Fara mest 9 stigum yfir í öðrum fjórðungnum, en eru fimm stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 42-37.
Stigahæst fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Ólöf Rún Óladóttir með 11 stig á meðan að hjá Haukum var Keira Robinson komin með 18 stig.
Vörn Keflavíkur heldur vel inn í seinni hálfleikinn og koma þær forystu sinni í tveggja stafa tölu strax í upphafi seinni hálfleiksins. Gera vel að halda í það forskot út þriðja fjórðunginn, sem endar 63-48 heimakonum í vil. Með sex stiga áhlaupi snemma í þeim fjórða koma Haukar muninum aftur inn fyrir tíu stigin, 65-56. Leikurinn svo í nokkru jafnvægi næstu mínútur, en þegar 5 mínútur eru til leiksloka leiða heimakonur enn með 10 stigum, 70-60. Keflavík gerir svo vel á lokamínútunum, hleypa Haukum aldrei inn í leikinn og sigra að lokum frekar örugglega, 83-62.
Atkvæðamestar
Best í liði Keflavíkur í kvöld var Daniela Wallen með 23 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar. Henni næst var Karina Denislavova með 13 stig, 5 fráköst og 9 stoðsendingar.
Í liði Hauka var það Keira Robinson sem dró vagninn með 28 stigum, 7 fráköstum og 4 stoðsendingum.
Hvað svo?
Bæði lið eiga leik næst komandi sunnudag 29. janúar. Þá heimsækir Keflavík lið Vals í Origo Höllina og Haukar fá Grindavík í heimsókn í Ólafssal.