Þór lagði Breiðablik í Smáranum fyrr í kvöld í 6. umferð Subway deildar karla, 102-104.
Eftir fyrstu sex umferðirnar er Þór með fimm sigra og eitt tap á meðan að Breiðablik hefur unnið einn leik og tapað fimm.
Leikur kvöldsins var nokkuð kaflaskiptur, þrátt fyrir að vera spennandi undir lokin. Þórsarar leiddu með 11 stigum eftir fyrsta leikhluta, 16-27, en með góðum öðrum leikhluta voru það heimamenn sem voru komnir með forystuna þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 55-49.
Gestirnir úr Þorlákshöfn ná aftur góðum kafla í upphafi seinni hálfleiksins og munaði aðeins einu stigi á liðunum fyrir þann fjórða, 78-79. Undir lokin var svo allt í járnum, þar sem liðin skiptust á að leiða leikinn og fór svo að með laglegri lokakörfu frá Luciano Nicolas Massarelli náðu Þórsarar að vera tveimur yfir þegar um 10 sekúndur voru eftir. Blikar fengu ágætisfæri til þess að jafna eða vinna leikinn á lokasekúndunum, en allt kom fyrir ekki, Þórsarar fóru með sigur af hólmi, 102-104.
Atkvæðamestur fyrir heimamenn í leiknum var Everage Richardson með 30 stig, 5 fráköst og Sam Prescott bætti við 21 stigi og 3 fráköstum.
Fyrir Þór var það Daniel Mortensen sem dró vagninn með 31 stigi, 12 fráköstum og Ronaldas Rutkauskas bætti við 15 stigum og 18 fráköstum.