spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÁlftanes lagði Fjölni örugglega í Forsetahöllinni

Álftanes lagði Fjölni örugglega í Forsetahöllinni

Lið Álftaness og Fjölnis mættust í 5. umferð fyrstu deildar karla í Forsetahöllinni og unnu Álftnesingar góðan sigur, 96-79. Eftir leikinn er Álftanes í 4.-5. sæti deildarinnar ásamt Selfoss með fjóra sigra og tvö töp á meðan að Fjölnir er í 8. sætinu með einn sigur og fimm töp það sem af er tímabili.


Gangur leiks
Fjölnismenn byrjuðu leikinn af krafti og fengu margar auðveldar körfur. Álftnesingar héldu samt sem áður í þá og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Staðan 21-21 í lok leikhlutans. Heimamenn komu vel inn í 2. leikhluta og leiddu með 10 stigum snemma í leikhlutanum. Leikurinn var mjög hraður og því mikið af töpuðum boltum. Þegar liðin héldu inn í búningsklefana leiddu Álftnesingar 49-40.

Í seinni hálfleik komu heimamenn yfirvegaðir og undirbúnir til leiks og byrjuðu leikinn á 12 stiga áhlaupi. Fjölnismenn virkuðu þreyttir og refsuðu Álftnesingar þeim fyrir það. Þeir héldu þessu myndarlega forskoti og endaði leikhlutinn 71-54 þeim í vil. Fjórði leikhlutinn var allt öðruvísi. Fjölnismenn komu sprækir inn í leikinn og náðu að klóra í bakkann með því að sækja hratt á einbeitingarlausa Álftnesinga.

Staðan snemma í 4. leikhluta, 78-71 fyrir heimamönnum og leikurinn hnífjafn. Leikmaður Fjölnis Dwayne Ross Foreman Jr. sótti á Álftnesingana með mikilli ákefð og náði í auðveldar körfur. Hrafn Kristjánsson, þjálfari Álftaness, tók þá leikhlé og endurskipulagði lið sitt. Eysteinn Bjarni Ævarsson hélt sínum mönnum inni í leiknum og lagði allt í sölurnar á báðum enda vallarins. Álftnesingar fóru að lokum með sigur af hólmi. Lokatölur 96-79 fyrir heimamönnum.

Tölfræðin lýgur ekki
Bæði lið spiluðu hraðan sóknarbolta og töpuðu samtals 45 boltum í leiknum.

Atkvæðamestir
Besti maður vallarins var klárlega Eysteinn Bjarni í liði Álftnesinga sem skilaði 22 stigum, 9 fráköstum og 8 stoðsendingum.


Bestu leikmenn Fjölnis í leiknum voru helst Dwayne Ross Foreman Jr. sem skilaði 23 stigum og 11 fráköstum og Ólafur Ingi Styrmisson sem skoraði 16 stig og tók 9 fráköst.

Hvað svo?
Heimamenn mæta næst Haukum á Ásvöllum föstudaginn 5. nóvember klukkan 19:30 sem verður mikil skemmtun. Fjölnir mætir Hamri 18:30 föstudaginn 5. nóvember á heimavelli sem verður fróðlegur leikur.

Tölfræði leiks

Önnur úrslit kvöldsins

Umfjöllun / Gunnar Bjartur

Mynd / Álftanes FB

Fréttir
- Auglýsing -