Tindastóll tók á móti spútnikliði Grindavíkur í Subway deild karla í körfuknattleik í Síkinu í kvöld. Fyrir leikinn voru heimamenn taplausir í deildinni en Grindvíkingar höfðu unnið sterkan sigur á grönnum sínum í Njarðvík í síðasta leik.
Leikurinn fór frekar rólega af stað, einkum sóknarlega en bæði lið voru að spila ágætis vörn. Grindvíkingar brutu ísinn og komust í 0-6 áður en heimamenn komust á blað sem var ekki fyrr en rúmar 3 mínútur voru liðnar af leiknum. Á einni mínútu náðu heimamenn að komast yfir en Grindvíkingar spýttu þá aftur í og komust í 9-15 áður en heimamenn vöknuðu aftur. Stólar voru svo með yfirhöndina seinni hluta fjórðungsins og leiddu 22-20 að honum loknum. Í öðrum leikhluta hélt sama baráttan áfram, sóknarnýting heimamanna hélt áfram að vera léleg og oft virkaði sóknarleikurinn ráðleysislegur gegn sterkum gestunum. Grindvíkingar voru skynsamari í sínum aðgerðum og nýttu skotklukkuna vel. Staðan í hálfelik 41-43 eftir góðan þrist frá Kristófer Breka og heimamenn í nokkrum vandræðum.
Það skánaði ekkert í þriðja leikhluta sem var eign Grindvíkinga. Þeir héldu áfram að spila skynsamlega í sókninni og náðu yfirleitt góðum færum með þolinmæði þrátt fyrir ákafan varnarleik heimamanna sem entist einfaldlega ekki út sóknir gestanna. Taktík Daníels virkaði ágætlega að þessu leyti og gestirnir unnu leikhlutann með 11 stigum, 16-27. Við upphaf 4. leikhluta var því kominn 13 stiga munur á liðunum og það var munur sem heimamenn náðu aldrei að brúa þó þeir hafi komist í færi til þess en einungis 6 stiga munur var þegar enn lifðu 2:21 af klukkunni og það er enginn munur í körfubolta. Stólar fóru þó illa að ráði sínu í lokasóknunum og Grindvíkingar sigldu að lokum heim nokkuð öruggum sigri 77-86.
Eins og áður sagði var sóknarleikur heimamanna hreinlega vandræðalegur á köflum og Grindvíkingar náðu að klippa leikstjórnendur Stólanna nánast út því báðir áttu dapran dag. Grindvíkingar rústuðu líka frákastabaráttunni, rifu niður 50 fráköst gegn aðeins 29 hjá heimamönnum. Hjá Stólum var Javon Bess sá eini sem virtist með meðvitund í sókninni og skilaði 30 stigum og 25 framlagsstigum. Aðrir áttu vægast sagt dapran leik og sérstaka athygli vakti að leikstjórnandinn Massamba skoraði aðeins 2 stig en tapaði 6 boltum. Sigurður Gunnar átti einnig erfitt uppdráttar enda andstæðingurinn inni í teignum hinumegin ógnarsterkur. Ivan Alcolado var yfirburðamaður á vellinum og setti tröllatvennu á skýrsluna, skilaði 25 stigum og 15 fráköstum. Liðsheild gestanna var sterk og allir byrjunarliðsmenn settu 10 stig eða meira á töfluna.
Myndasafn (væntanlegt)
Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna