spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaBóndadagssigur í sveitinni!

Bóndadagssigur í sveitinni!

Góð stemmning var á pöllum íþróttahússins á Flúðum í kvöld þegar Skagamenn komu í heimsókn og mættu Hrunamönnum í móður allra íþrótta. Þeir áhorfendur sem mættir voru til að fylgjast með sínum mönnum urðu sannarlega ekki sviknir af góðri kvöldskemmtun. Nokkrir góðir stuðningsmenn voru að blóta þorrann og einhverjir tóku jaðaríþróttina fram yfir en við reiknum með þeim á næsta heimaleik.

Bæði lið komu inn í leikinn með tap á bakinu. Hrunamenn töpuðu balli á Bessastöðum í vikunni og ÍA tapaði með ótrúlegum hætti fyrir Fjölnismönnum upp á Skaga í miklum darraða dans undir lok leiksins. Nokkrar mannabreytingar hafa orðið á nýju ári. Marko Jurica hefur líklega hlustað of mikið á Gúanóstelpuna með Mugison því hann kvaddi Skagann og fór aftur vestur. Hjalti Þorleifsson er mættur á Skagann og hann fékk krefjandi hlutverk í leiknum. Hjá Hrunamönnum er Rúmeninn, Choki mættur til leiks. Kappinn mætti á æfingu fyrr í vetur en hafði ekki tíma í verkefnið sökum byggingarvinnu í Reykholti en hefur nú fundið tíma fyrir körfuna. Choki er reyndur leikmaður, m.a. úr efstu deild í Rúmeníu og kann leikinn vel.

Choki byrjaði leikinn sterkt fyrir Hrunamenn, setti niður tvo þrista og virkaði ferskur í sínum fyrsta leik á Flúðum. Leikstjórnandinn Eyþór Orri var aftur mættur á gólfið eftir veikindi, liðið saknaði hans í síðasta leik. Með fyrirliðanum byrjuðu auk Choki, Friðrik, Sam og JR leikinn. Haukur Hreinsson og Arnór Eyþórsson voru forfallaðir í þetta skiptið. Hjá Skagamönnum hófu leik, Hjalti og stórskyttan Þórður Freyr ásamt atvinnumönnunum Gabriel, Lucien og Jalen. Hjalti fékk það erfiða hlutverk að líma sig á JR og beitti á köflum ýmsum brögðum en það dugði eingöngu til skamms tíma. JR var reyndar snemma kominn með tvær villur í 1. leikhluta og í 2. leikhluta fékk hann þriðju villuna þannig að hann gat ekki beitt sér sem skyldi en Hrunamenn spiluðu frábæran og óeigingjarnan körfubolta í kvöld þannig að liðið komst vel af þó svo JR nyti ekki við inni á vellinum.

Leikurinn þróaðist þannig framan af að Hrunamenn voru alltaf skrefinu á undan en voru stundum klaufar að hrista ekki gestina betur af sér, t.a.m. undir lok 1. leikhluta þegar Skagamenn skoruðu 5 stig á síðustu 10 sekúndunum og jöfnuðu leikinn í 24-24. Í 2. leikhluta voru margir að leggja í púkkið hjá heimamönnum en frábær frammistaða Þórðar Freys fyrir utan þriggja stiga línuna gaf Skagamönnum von fyrir síðari hálfleikinn. Staðan í hálfleik 44-39 eftir góða flautukörfu frá JR.

Í síðari hálfleik nældi Gabriel Alderstag sér snemma í sína þriðju villu og Skagamenn eflaust ekki sáttir við hans framlag í kjölfarið því í næstu heimsóknum hans síðar í leiknum inn á völlinn átti hann eftir að næla sér í eina tæknivillu og síðar sína fimmtu villu. Hrunamenn léku góðan varnarleik í kvöld og náðu að halda bæði Gabriel og Lucien í heljargreipum. Gabriel lauk leik í kvöld með 7 stig og 4 fráköst og hinn silkimjúki skotmaður Lucien skoraði einungis 5 stig. Þegar Gabriel naut ekki við inni á vellinum nýttu Hrunamenn sér vel yfirburðina inni í teig, Yngvi skoraði góðar körfur, JR komst betur á hringinn og sóknarhæfileikar Hrings voru nýttir þó svo hann hafi verið óheppinn með sín skot. Auk þess voru margir frábærir spilkaflar Hrunamanna sem enduðu með góðu skotum eða auðveldum sniðskotum allra í liðinu. Óhætt er að minnast á innkomu Dags og Óðins sem komu með frábæra orku inni í leikinn og góðar körfur.

Staðan fyrir 4. leikhluta var 65-57 og stórir þristar frá Frikka og Eyþóri slökktu vonir Skagamanna endanlega. Um miðjan 4. leikhluta var björninn unninn og liðin skiptust á nokkrum körfum undir lokin, lokastaða 94-78 sigur Hrunamanna. Þórður Freyr reyndi þó fram í rauðan dauðann og sýndi djörfung og dug en hann ásamt Jalen Dupree voru langbestu menn Skagamanna í leiknum. Þórður Freyr skoraði 26 stig og gaf 6 stoðsendingar og Jalen skoraði 21 stig ásamt því að rífa niður 10 fráköst. Ungir leikmenn Skagamanna komust margir hverjir vel frá sínu og ef rétt verður staðið að málum eru þar framtíðarmenn á ferð.

Hjá Hrunamönnum var gaman að sjá góðan varnarleik (í fyrsta skiptið í vetur sem liðið fær á sig færri en 80 stig) og óeigingjarnan körfubolta (24 stoðsendingar) leggja grunn að góðum sigri. Allir leikmenn Hrunamanna sem léku í leiknum geta gengið stoltir frá borði og gaman var að sjá bekkinn fagna því sem vel var gert inni á vellinum, það var alvöru samstaða í gangi. Traustið sem leikmenn og þjálfarar báru til hvers annars barst einnig til þeirra sem með lögvaldið fóru í leiknum og í fyrsta skipti í vetur var ekki hægt að greina leiðinlegt dómaratuð hjá heimamönnum, orkan fór í rétta átt sem er vel. JR átti frábært kvöld (24 stig, 17 fráköst og 10 stoðir), tók færri erfið skot og fann liðsfélaga sína á góðum stöðum og er liðið farið að finna fleiri lausnir á þeim varnarleik sem flestir ef ekki allir andstæðingar eru farnir að beita gegn Hrunamönnum. Sam skilar sínu hlutverki vel og í kvöld spilaði hann sérstaklega vel varnarmegin á vellinum og náði að halda betur aftur af Jalen Dupree en mörgum öðrum sem það hafa reynt í vetur.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Texti / Árni Þór Hilmarsson

Myndir / Brigitte Brugger

Fréttir
- Auglýsing -