Valur lagði Grindavík í kvöld í 13. umferð Subway deildar karla, 92-67. Eftir leikinn er Valur í efsta sæti deildarinnar með 22 stig á meðan að Grindavík er í 7. sætinu með 14 stig.
Fyrir leik
Bæði lið voru að koma nokkuð heit inn í leik kvöldsins. Topplið Vals búið að vinna fjóra síðustu deildarleiki sína á meðan að Grindavík hafði unnið þrjá í röð. Valsmenn unnu að sjálfsögðu líka undanúrslit og úrslitaleik VÍS bikarkeppninnar í síðustu viku.
Gangur leiks
Grindavík er betri aðilinn á upphafsmínútunum, þar sem þeir leiða mest með 7 stigum í fyrsta leikhlutanum. Heimamenn er þó nöggir að bregðast við og leiða með minnsta mun mögulegum þegar fjórðungurinn er á enda, 20-19. Í öðrum leikhlutanum ráða Valsmenn lögum og lofum á vellinum. Sigla hægt en mjög örugglega framúr Grindvíkingum og leiða með 13 stigum þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-34.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Kári Jónsson með 11 stig á meðan að Ólafur Ólafsson var einnig kominn með 11 stig fyrir Grindavík.
Grindvíkingar mæta varnarlega sterkari til leiks í seinni hálfleiknum og ná að setja saman áhlaup þar sem að þeir skera forskot heimamanna mest niður í 6 stig í stöðunni 53-47. Valsmenn setja fótinn þá aftur á bensíngjöfina, ná að svara Grindvíkingum með 10-4 áhlaupi og eru því 12 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 63-51.
Á fyrstu mínútum fjórða leikhlutans fær lykilleikmaður Grindavíkur Ólafur Ólafsson sína fjórðu villu og strax í kjölfarið sína fimmtu og er því útilokaður frá restinni af leiknum. Virkilega dýrar villur, þar sem að Ólafur hafði verið besti leikmaður liðsins í leiknum. Þeir gefast ekki upp þrátt fyrir þetta, halda þessu í leik og eru aðeins 10 stigum undir þegar 5 mínútur eru eftir. Þá er eins og allar stíflur losni hjá Val, setja skot eftir skot niður, stoppa á hinum enda vallarins og sigla að lokum mjög svo öruggum sigur í höfn, 92-67.
Atkvæðamestir
Bestur í liði Vals í kvöld var Kári Jónsson með 19 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Þá bætti Kristófer Acox við 11 stigum og 10 fráköstum.
Fyrir Grindavík var Damier Pitts atkvæðamestur með 18 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Honum næstur var Ólafur Ólafsson með 13 stig og 7 fráköst.
Hvað svo?
Grindvíkingar eiga leik næst komandi fimmtudag 26. janúar heima gegn Keflavík á meðan að Valur heimsækir Breiðablik í Smárann degi seinna.