spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaTindastóll skilaði útisigri fyrir nýjan þjálfara sinn - ÍR enn í botnbaráttunni

Tindastóll skilaði útisigri fyrir nýjan þjálfara sinn – ÍR enn í botnbaráttunni

Tindastóll heimsótti ÍR í Skógarseli í kvöld í Subway deild karla. Breiðhyltingar höfðu fram að þessu unnið þrjá leiki og voru í botnbaráttunni á meðan að Stólar höfðu unnið 6 leiki og tapað 6. Nýr þjálfari þeirra, Pavel Ermolinskij, hafði nýverið tekið við liðinu eftir að Vladimir Anzulovic var látinn fara.

Leikurinn var jafn framan af en gestirnar af Króknum náðu aðeins að síga fram úr ÍR í fyrsta leikhluta, 22-17. Heimamenn hleyptu Stólunum aðeins frá sér á köflum í öðrum leikhlutanum en fundu körfuna (og þá sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna) undir lok fyrri hálfleiksins og liðin skildu að í hálfleik 42-41, ÍR í vil.

ÍR og Tindastóll skiptust á forystunni í þriðja leikhluta og stigaskor var hnífjafnt, 65-65, fyrir lokaleikhlutann. Leikurinn virtist ætla að vera spennandi fram á síðustu mínútu leiksins. Annað kom hins vegar á daginn.

Tindastóll átti frábæra rispu á fyrstu mínútum lokafjórðungsins og skoruðu 12 stig í röð áður en ÍR-ingar gátu svarað fyrir sig. Þá var skaðinn skeður og þó að Breiðhyltingar hafi tekið við sér og barist þá var lítið hægt að gera og leikurinn endaði 81-96, gestunum í vil.

Pétur Rúnar Birgisson átti góðan leik með 20 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar (ásamt frábærri skotnýtingu; 83% utan velli og 6/6 í vítaskotum). Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Adomas Drungilas eiga sömuleiðis hrós skilið en þeir takmörkuðu mjög Taylor Johns hjá ÍR, sem skoraði aðeins 4 stig og var með 3 framlagsstig í leiknum (hafði fram að þessu skorað 23,9 stig og skilað 30 í framlag að meðaltali í leik). Hjá ÍR var Luciano Massarelli skástur með 21 stig, 3 stoðsendingar og 4/7 í þristum.

Næsti leikur ÍR er 26. janúar gegn Stjörnunni í Umhyggjuhöllinni, en sama kvöld tekur Tindastóll á móti Njarðvík í Síkinu á Sauðárkróki.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -