spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaSamstöðusigur í sveitinni

Samstöðusigur í sveitinni

Liðsmenn Hrunamanna þjöppuðu sér heldur betur saman í leik liðsins gegn Fjölni sem fram fór á Flúðum í kvöld. Körfubolti er liðsíþrótt. Það sannaðist enn og aftur í kvöld. Á meðan Fjölnismenn reyndu hver og einn upp á sitt einsdæmi að sigrast á 2-3 svæðisvörn Hrunamanna eða setja upp leikkerfi sem gengu öll út á það sama, þ.e. að búa til skot handa Mirza Sarajlija, skilaði hraður samleikur og samstaða í vörn Hrunamönnum hverri stöðvuninni á eftir annarri og sóknum sem lauk með skoraðri körfu. Árangursríkt upplegg þjálfarans, þolinmæði leikmannanna, leikgleði og samstaða skilaði öruggum sigri heimamanna, 108-74.


Það var ljóst strax í 1. fjórðungi leiksins að Árni Þór þjálfari Hrunamanna ætlaði sér að leggja traust sitt á liðsheildina. Í leikhlutanum notaði hann 9 leikmenn. Boltinn gekk hratt á milli manna og vörninni var þjappað í 2-3 svæði án þess að mæta Fjölni nokkurn tíma með pressu hátt upp á vellinum. Í 2. fjórðungi léku Fjölnismenn sama varnarafbrigði og Hrunamenn höfðu beitt og buðu þar með Eyþóri Orra fyrirliða heimamanna í veislu. Ef hann skoraði ekki sjálfur fann hann einhvern liðsfélaga í betra færi og forystan jókst. Fjölnisstrákarnir fóru að brjóta af sér og snemma komust Hrunamenn í skotrétt. Tvennt gaf Fjölni von á þessum kafla leiksins. Annað var að Mirza fór að hitta þriggja stiga skotunum í körfuna, hitt að Kent Hanson í liði Hrunamanna fékk dæmda á sig 4. villuna. Orri Ellertsson slökkti sjálfsagt vonarneista Fjölnismanna um endurkomu þegar hann hitti skoti af fáránlega löngu færi um leið og leiktíminn rann út. Hrunamenn leiddu í hálfleik, 62-36.

Eina áhlaup Fjölnis var í upphafi seinni hálfleiks þegar þeir skoruðu 12 stig gegn 3 stigum heimamanna. Þá léku Hrunamenn illa en Fjölnismenn fundu Mirza sem hitti vel. Fjölnismenn hömruðu ekki járnið nægilega meðan það var heitt. Þeir hleyptu Hrunamönnum aftur inn í leikinn. Samleikurinn varð sífellt minni og meira bar á einstaklingsáhlaupum sem skilaði sér oftar í illa ígrunduðu skoti og töpuðum bolta en skoraðri körfu.

Liðsheildin var svo öflug í röðum Hrunamanna að nánast ómögulegt er að benda á einn leikmann liðsins og útnefna hann sem mann leiksins. Eyþór var góður í kvöld, Karlo var góður, Clayton var góður, Yngvi var góður, Þórmundur var góður, Kent var góður og Orri var góður. Páll Magnús hefði örugglega líka verið góður hefði hann ekki þurft að yfirgefa völlinn um leið og hann kom inn á hann með það vandasama hlutverk að gæta Mirza sem var kominn í stuð í 3. leikhluta. Mirza stjakaði honum frá sér en hitti hann beint á nefið svo úr blæddi. Hringur og Kristófer komu lítið við sögu en stóðu svæðisvörnina ágætlega þær mínútur sem þeir léku.

Hjá Fjölni var Mirza öflugur. Sá getur hitt boltanum í körfuna! Viktor Máni átti nokkra ágæta spretti. Í Fjölnisliðinu eru margir góðir skotmenn en í kvöld hittu þeir illa þrátt fyrir að leika gegn svæðisvörn nánast allan leikinn og fá mörg lítið trufluð skot. Bandaríkjamaðurinn í liði þeirra, Dwayne Ross Foreman Jr., skoraði 20 stig og fékk 5 villur. Hann var ágætur á sóknarhelmingi, Kent var í vandræðum með hann framan af leik, en varnarleikur hans var ekki burðugur miðað við styrk og þá sentimetra sem hann hefur umfram hávöxnustu Hrunamennina. Sérstaklega fór Yngvi Freyr Óskarsson illa með hann á póstinum. Svæðisvarnarafbrigðið sem Fjölnir beitti í lokafjórðungnum, þegar Rafn Kristján Kristjánsson hafði fengiði brottvísun og Dwayne var með 4 villur, skildi eftir stórt gap inni í miðju varnarinnar. Þar var hægt að láta boltann ganga hratt inn og hratt út og opna þannig greiða leið að körfunni.

Þá var Yngvi Freyr í lykilhlutverki sem batti sem lét boltann detta í kringum sig þar sem liðfélagar hans hirtu hann upp og oft lauk þessum sóknum með körfu. Þriggja stiga körfur Þórmundar Smára komu báðar á góðum tíma í leiknum ef svo má segja – þetta voru körfur sem slökktu í glóðum sem voru við það að lifna hjá Fjölni. Karlo Lebo nýtti líkamlegan styrk sinn vel og mætti í leikinn með það hugarfar að berjast fyrir liðið, Clayton Lavine reif mannskapinn áfram upp úr lægðinni í upphafi seinni hálfleiks með smitandi leikgleði sinni og ákefð, Eyþór tengdi vel við alla félagana og skoraði mikilvægar körfur, Kent er hörkuleikmaður! Hann hefur yfir að ráða tækni og yfirvegun sem gerir honum kleift að framkvæma aðgerðir sínar með boltann á rólegu temópi þótt andstæðingarnir snerti hann og nuddist utan í honum og takast yfirleitt vel upp.

Það má með sanni segja að sigur Hrunamanna á Fjölni hafi verið sigur liðsheildarinnar.

Tölfræði leiks

Myndasafn


Umfjöllun, viðtal / Karl Hallgrímsson
Myndir / Brigitte Brugger

Fréttir
- Auglýsing -