Mun D‘Ascq standast væntingarnar
Franska liðið byrjaði rólega, spiluðu rólega í sókninni en þungi að baki hverri hreyfingum. Hin gríðarstóra Diaby var erfið í teignum og D‘Ascq komst í átta-núll og 2-12 og hafði þá Diaby skorað 6 og tekið 4 fráköst. Varnarleikur franskra var stöðugur, engar auðveldar sendingar, engin auðveld skot og nokkrar skottilraunir Haukastúlkna snertu ekki hringinn. Tóku Haukar leikhlé í stöðunni 7-19. Sóknarleikur D‘Ascq liðsins var ekkert flókinn en allt framkvæmt af styrk og ró. Þrátt fyrir endurskipulagningu og hvatningu þjálfara hélt franska liðið áfram að spila af sama styrk og líkamsburðum. Fljótari í hverri stöðu, vel skipulagðar og einbeittar skiluðu þær liði sinu í 9-26 forystu eftir fyrsta leikhluta.
Fljóta, sökkva, troða marvaðann?
Gríðarlega mikilvægt fyrir Hauka að finna lausnir á sóknarleik franskra, stöðva spilið sem var að skila stigum rétt við hringinn. Stöðva sóknarfráköstin. Þetta var lykilinn (að mínu mati) á því að eiga möguleika á endurkomu. Já, og að skora meira en 9 í leikhluta. Haukar byrjuðu vel, vörnin hélt og fjögur stig í röð kom þessu í helmingsmun 13-26. Helena gerði vel í að halda Diaby frá návígi við hringinn. Það var aðeins bragð af því að Haukar væru búnir að ná jafnvægi. Sóknarleikur Hauka sýndi hins vegar ekki nægileg merki um að verða lífvænlegur og Bjarni tók leikhlé til að leggja á ráðin.
Haiden sem var ekki beint búin að finna fjölina fór út og Jana kom inn. Bakverðir Hauka því 18 og 16 ára. Munurinn jókst í 13-30 en lífsmark með sókn Hauka samt. Nú þegar D‘Ascq liðið var búið að sýna yfirburði í teignum og vörn Hauka brugðist við með að þétta teiginn fóru franskar að fá galopin langskot en niður vildi boltinn ekki. Vonin var að þetta drægi tennurnar úr gestaliðinu, bryti aðeins sjálfstraustið. Tók franski þjálfarinn leikhlé í stöðunni 17-30 enda höfðu leikmenn hans ekki fundið netið í nokkrar mínútur. 150 sekúndur til leikhlés. Zohnová setti loks fyrsta þrist gestanna. Hinum megin máttu Haukar gera betur í tveimur „náfærum“ en þess í stað fékk Helena eina „pirraða“ villu og Zohnová setti annan þrist. Lovísa svaraði að bragði með þristi og staðan 20-36. Haukar þurfa að eiga góðar lokasekúndur en þessar frönsku eru ekki linar og blautar, þær stela boltanum af Haiden á miðjunni og setja tvö til viðbótar þegar 24 sekúndur eru eftir.Hálfleikstölur 20-38.
Aðdáunarvert að sjá svona vel skipulagt og líkamlega sterkt lið eins og það franska. Hver einasti leikmaður í flottu formi, enginn að rembast við að skreyta leik sinn eða taka meira til sín en leikskipulagð krefst. Munurinn á líkamsgetu liðanna er áberandi.
Haukar tefldu fram fríðum og fjörugum hópi klappstýra í leiknum sem lífgað hafa verulega upp á leikhléin í leiknum.
Hvernig nota Haukar seinni hálfleikinn?
D‘Ascq liðið hefur ekki fengið á sig meira en 48 stig í fyrstu deildarleikjunum og forvitnilegt verður að sjá hvort Haukar brjóta þann múr.
D‘Ascq liðið byrjar seinni hálfleikinn eins og þann fyrri nema núna eru þristarnir byrjaðir að detta. Þegar Bjarni tekur leikhlé í stöðunni 22-48 og 7 mínútur enn eftir. Á meðan Haiden gengur af leikvelli er dæmd á hana tæknivilla og áður en leikhléinu líkur þá er henni vísað út úr salnum af dómara og eftirlitsmanni. Verður forvitnilegt að sjá hvernig Haukar tækla það að missa aðalleikstjórnanda sinn.
Franskar byrja strax að pressa framar og Helena fer að flytja boltann upp völlinn. Þetta mun ekki enda vel. Bjarni fær tæknivíti fyrir að kvarta yfir dómgæslunni þegar 5 mínútur eftir og staðan orðin 24-56. Áhorfendur æpa af fögnuði þegar loks dæmd villa á franska liðið.
Áfram heldur slátrunin. Svanhildur Svavars væri búin að fá lögbann á þessa „Klíník“ væri hún enn heilbrigðisráðherra að berjast gegn einkaframtakinu. Haukarstelpur góðar að ná skoti á meðan D‘Ascq liðið er í hlaðborði við körfuna. Bjarni gefur Jönu og Rósu tækifæri og þær gera vel varnarlega. Sóknarleikurinn í þriðja ekki til útflutnings, ekki til Frakklands að minnsta kosti. Staðan 26-65 eftir þrjá leikhluta. Sex stig í öllum þriðja leikhlutanum.
ÞETTA eru atvinnumenn
Það er enga uppgjöf af sjá hjá frönsku atvinnumönnunum í upphafi fjórða leikhluta. Þær pressa grimmt og sækja fast að körfunni. Haukar hafa þó ákveðið að bjóða upp til dans og spila fastar og fastar. Virðast dómararnir þrír þó meta það svo að franska liðið brjóti minna af sér þó þær frönsku spili í raun fastar en þær hafnfirsku. Spil D‘Ascq er svo gott og þolinmæðin svo rík að stundum eru ungu íslensku stelpurnar sundurspilaðar og síðasta sending á stóra á móti lítilli undir körfunni næstum því neyðarlegt að horfa á.
Haukar neita að leggjast niður og ná að hægja á frönsku mulningsvélinni og setja nokkur góð stig sóknarmegin. Staðan 32-74 þegar fimm mínútur til leiksloka. Þetta er í raun glæsileg barátta gegn liði sem er líkamlega sterkara í öllum leikstöðum. Fimm stig í röð frá Kristrúnu koma leiknum í 40-77. Sjúkk, það var orðið ástæða til að óttast að 40 stiga múrinn yrði ekki klifinn í kvöld. Frábær barátta Hauka á lokamínútum, með sína ungu leikmenn á vellinum, færði þeim dýrmæta reynslu en þær máttu sín lítils sóknarmegin á vellinum og úrslitin 41-84.
Þeir sem lögðu leið sína í Hafnarfjörð til að horfa á Europe Cup leik Haukanna í kvöld fengu veislu. Veislu í form frábærs fransks körfuboltaliðs, alvöru atvinnuliðs í körfubolta og eflaust besta lið riðilsins.
Umfjöllun, viðtöl / Jóhannes Albert