spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaHaukar brjóta blað í körfuboltasögu Íslands - Mæta Villeneuve D´ascoq kl. 19:30...

Haukar brjóta blað í körfuboltasögu Íslands – Mæta Villeneuve D´ascoq kl. 19:30 í kvöld

Með þátttöku í riðlakeppni Europe Cup heldur kvennalið Hauka áfram að skrifa nafn sitt fremst í sögubækur íslensks körfubolta og eru á sama tíma að skuldbinda þær sjálfar til umfangsmestu fjáröflunarþátttöku Hauka á eigin leikmannaferli. Vona ég sannarlega að þeir sem hæst tala um jafnrétti kynjanna í boltaíþróttum  mæti á alla leiki þeirra og kaupi jafnframt upp allan þær kleinur, vorrúllur, lakkrís, súkkulaði, húfur, trefla, búninga, klósettpappír, eldhúsrúllur og annað sem Haukastelpurnar munu reyna að selja næstu vikur og mánuði. Kvennakvöld Hauka ætti að halda í Hörpu og „fylla kofann“.

Hvaðan er andstæðingurinn í kvöld?

Fyrir þá sem staðfastir munu fylgja Haukum í alla útileiki í Europe Cup þá er Villeneuve D‘Ascoq eða Nýja Ascoq bær eða borg nyrst í Frakklandi.

Ascoq er 110 þúsund manna skólabær skammt frá landamærum Frakklands og Belgíu. Nýja Ascoq er nokkurn veginn jafnlangt frá París og London og er mikill háskólabær sem þekktur er meðal annars fyrir flotta íþróttaviðburði og íþróttalið en einnig virta háskóla.

Hvað getur andstæðingurinn?

 Það var í sjálfu sér ótrúlegt afrek hjá Haukum að komast í riðlakeppnina, að sigra Azor-eyjaliðið. Verðlaunin eru að íslenskir körfuknattleiksunnendur munu sjá frábær atvinnumannalið eins og D‘Ascoq liðið. Haukastelpurnar fá hins vegar það erfiða verkefni að taka slaginn við þrautreynda, hávaxna og agaða atvinnumenn. Körfuboltakvöld ætti hreinlega að taka upp aukaþátt á fimmtudegi í tilefni dagsins. Fyrsta spunaspurningin gæti verið í hvaða sæti í úrvalsdeild karla mynd D‘Ascoq liðið lenda. 

Í þessu franska liði eru átta erlendir leikmenn og sex leikmenn með franskt vegabréf, þar af ein í byrjunarliði. Minnir samsetning byrjunarliðsins um margt á nokkur íslensk karlkyns Subway deildarlið. Meðalhæð byrjunarliðsins er 1,78 cm og meðalaldurinn 31 ár. Liðið er 2-0 í frönsku deildarkeppninni í ár og virðist vera að byrja tímabilið af gríðarlegum krafti, skorað 85 stig (næstflest stig að meðaltali í frönsku deildinni) og aðeins fengið á sig 48 stig (besta varnarliðið).  Fimm leikmenn eru að skora yfir tíu stig að meðaltali og ein til viðbóta ansi nærri tíu stiga múrnum.

Hverjir eru möguleikar Hauka?

Eftir frækna leiki í Europe Cup hefur Haukaliðið þurft að þola meiðsli hjá Helenu og Haiden Palmer sem eru einu leikmenn Hauka sem ná 30 ára aldursmarkinu. Ætli Haukakonur að veita D‘Ascoq liðinu verðuga keppni í kvöld þurfa báðir þessir leikmenn að vera heilar, Ólafssalur að fullur af öskrandi grimmum stuðningsmönnum og allir leikmenn liðsins að vera í berserkjaham að hætti íslenskra víkinga til forna. Liðið þarf hreinlega að hitta á besta leik tímabilsins, sérstaklega varnarlega. Það jákvæða er að Haukaliðið er vel þjálfað, með reynslumikla leikmenn í leiðtogahlutverkum og fullt af ungum töffurum sem ekki eru líklegar til að koðna niður þótt á móti blási. Vinni Haukar frákastabaráttunna og haldi töpuðum boltum nálægt núllinu munu áhorfendur fá spennandi lokamínútur. Vonandi!

Umfjöllun / Jóhannes Albert

Hérna er heimasíða mótsins

Hérna verður leikurinn í beinni útsendingu

Fréttir
- Auglýsing -