Njarðvík og Þór Þorlákshöfn opnuðu tímabilið í Subway-deild karla í kvöld með viðureign sinni í Ljónagryfjunni. Heimamenn í Njarðvík voru við stýrið frá upphafi til enda og uppskáru verðskuldaðan 107-82 sigur. Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkinga tók út leikbann í kvöld en stól hans fyllti Halldór Karlsson aðstoðarþjálfari sem fékk einnig Rúnar Inga Erlingsson sér til aðstoðar.
Heimamenn í Njarðvík tóku vel á móti Íslandsmeisturunum og stóðu fyrir þá snarpan heiðursvörð í upphafi leiks þar sem vallargestir sem og leikmenn klöppuðu meisturunum lof í lófa. Myndarlegt framtak og virðingarvert.
Ljónin léku eins og þeir ættu harma að hefna enda sáu þeir á eftir titli meistaranna í hendur Þórsara um síðastliðna helgi. Þann daginn var góður gangur á Þór en í kvöld vildu skotin ekki niður og í raun fátt sem gekk að óskum.
Njarðvíkingar leiddu 31-17 eftir fyrsta leikhluta þar sem Dedrick Basile gerði 11 stig en Luciano var með 5 stig í liði gestanna. Njarðvík opnaði annan leikhluta með 19-10 skvettu og leiddu svo 57-36 í hálfleik. Þar með var björninn unninn, lítið gekk hjá Þór í fyrri hálfleik gegn sterkri vörn heimamanna og þarna var í raun ljóst í hvað stefndi.
Nokkuð líf færðist í Íslandsmeistara Þórs í þriðja leikhluta og náðu þeir að minnka muninn í 75-60 en nær komust þeir ekki og Njarðvíkingar með fjölbreytt framlag frá sínum mönnum í kvöld lokuðu leiknum 107-82.
Dedrick Basile var stigahæstur Njarðvíkinga í kvöld með 26 stig, 5 fráköst, 8 stoðsendingar og 3 stolna bolta en framlagið lét ekki á sér standa því fimm leikmenn liðsins voru með 12 stig eða meira í kvöld. Næstur á eftir Basile var Mario Matasovic með 23 stig og Nico Richotti með 20 stig. Hjá Þór var Daniel Mortensen með 24 stig og 11 fráköst og Glynn Watson bætti við 19 stigum.
Næst á dagskrá hjá Njarðvíkingum er útileikur gegn Þór Akureyri en Þór Þorlákshöfn tekur á móti Vestra í Icelandic Glacial Höllinni.
Umfjöllun, myndir / Jón Björn