spot_img
HomeBikarkeppniÞór Þorlákshöfn er meistari meistaranna

Þór Þorlákshöfn er meistari meistaranna

Íslandsmeistarar Þórs frá Þorlákshöfn eru meistarar meistaranna tímabilið 2021-2022 eftir 113-100 sigur á nýkrýndum bikarmeisturum Njarðvíkur. Meistarar Þórs stungu af í þriðja leikluta og náðu á tíma ríflega 20 stiga forskoti og það reyndist Njarðvíkingum um megn. Daniel Mortensen fór fyrir Þór í kvöld með 26 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá Njarðvíkingum var Fotios Lampropolous atkvæðamestur með 26 stig og 11 fráköst. 

Íslandsmeistarar Þórs komu sprækari til leiks í kvöld og leiddu 25-21 að loknum fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta losnaði heldur betur um sóknarvilja beggja liða og vann Njarðvík leikhlutann 32-38! Staðan í hálfleik 57-59 fyrir Njarðvík.

Gestirnir urðu fyrir skakkaföllum þegar nokkuð var liðið á annan leikhluta þegar Benedikt þjálfari fékk reisupassann eftir tvær virkilegar strangar tæknivillur. 

Fotis leiddi Njarðvíkinga í hálfleik með 15 stig og Mario þar skammt undan með 13 en hjá Þór var Daniel Mortensen með 15 stig sem og kollegi hans Ronaldas. 

Í þriðja leikhluta lögðu Þórsarar grunninn að sigri sínum, Mortensen setti allt niður og vörn Þórs hélt Njarðvíkingum í aðeins 12 stigum allan leikhlutann. Staðan 89-71 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Magnaðar 10 mínútur hjá Þórsurum og eftirleikurinn í raun auðveldur.

Reyndar var fjórði leikhluti kunnuglegt stef frá bikarúrslitaleiknum nema núna snérist taflið við í höndum Njarðvíkinga. Þeir lentu vel á eftir Þór en börðu sig nærri en Þór stóðst áhlaupið og unnu sanngjarnan sigur. 

Meistarar Þórs virðast hafa náð til sín sterkum spilurum í Glynn, Luciana, Mortensen og Ronaldas og verður fróðlegt að sjá hvernig Íslandsmeistararnir plumma sig á leiktíðinni. 

Þess má til gamans geta að það verða einmitt lið kvöldsins sem munu opna leiktíðina í úrvalsdeild karla næsta fimmtudag þegar Njarðvíkingar fá Þór Þorlákshöfn í heimsókn í Ljónagryfjuna. 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -