Föstudagskvöldið 1. október fór fram á Flúðum leikur Hrunamanna og ÍA í 1. deild karla. Þetta var leikur lélegra varna og því áttu bæði lið létt með að ljúka sóknum sínum með körfu. Hrunamenn byrjuðu leikinn betur og náðu góðu forskoti en Skagamennirnir létu ekki kaffæra sig og komu alltaf upp á yfirborðið aftur. Stundum komust þeir m.a.s. yfir, leiddu t.a.m. eftir 1. fjórðung, 28-30. Í hálfleik stóðu leikar 54-50 Hrunamönnum í vil. Þá hafði annar tveggja nýju leikmannanna þeirra, Kent Hanson að nafni, skorað 26 stig. Þar er á ferðinni hinn ágætasti körfuboltaleikmaður.
Seinni hálfleikinn hófu Hrunamenn af krafti og náðu um tíma 12 stiga forystu. Þá náðu þeir í smástund að nýta vel stóru mennina, Yngva Frey og Karlo Lebo, sem skoruðu góðar körfur á blokkinni, gáfu inn-út sendingar og sóttu sóknarfráköst. Akurnesingarnar fundu fljótt svör við þessu og lokuðu auk þess næstum alveg leiðum Kent Hanson að körfunni. Kent skoraði lítið í 3. leikhlutanum. Hrunamenn gerðu sér hlutina erfiða; voru pirraðir út í dómarana, reyndu vonlausar sendingar, brutu af sér að nauðsynjalausu og voru hér um bil við það að missa frá sér alla stemmningu. Þó hélt Árni Þór tryggð við þá fáu leikmenn sem hann treysti fyrir alvöru hlutverki í þessum leik. Eftir leikhlé sem Árni tók hresstust Hrunamenn nokkuð og leikur þeirra varð betri á eftir.
Lokakaflinn var spennandi. ÍA komst í skotrétt þegar heilar 6 mínútur voru eftir af leiknum og Karlo Lebo fékk 5. villuna dæmda á sig örfáum sekúndum síðar. Karlo er nautsterkur, góður að búa til hindranir og mikilvægur í frákastabaráttunni. Þar misstu heimamenn mikilvæga eiginleika úr liði sínu. Á sama tíma átti ÍA inni 4 villur að gefa. Á þessum tímapunkti leiksins vantaði Skagamenn meiri klókindi. Hrunamenn hirtu stigin tvö sem í boði voru. Lokatölur á Flúðum, 106-101.
Kent Hanson var stigahæstur heimamanna með 43 stig. Leikstjórnandinn Clayton Ladine skoraði 19 stig, Karlo 13, Eyþór Orri og Yngvi Freyr 11, Þórmundur Smári 7 (100% skotnýting!) og Orri 2.
Hjá ÍA var Christopher Clover stigahæstur með 29 stig og Nestor Saa með 19. Þeir voru langbestir í liði ÍA. Hinn ungi Þórður Freyr Jónsson er góð skytta. Hann skilaði 16 stigum á töfluna, þar af 5 þristum. Davíð Magnússon skoraði 15 stig.
Umfjöllun, myndir / Karl Hallgrímsson