KR-ingar tefldu fram nýjum leikmanni í Icelandic Glacial mótinu í Þorlákhöfn um helgina. Daninn Adama Karsten Darboe lék með liðinu gegn Breiðablik í gær og skilaði 22 stigum, 3 fráköstum og 8 stoðsendingum á um 27 mínútum spiluðum.
Adama er 35 ára, 190 cm leikstjórnandi sem síðast spilaði fyrir Bakken Bears í heimalandinu, en ásamt því að hafa spilað þar hefur hann einnig áður leikið á Spáni, í Belgíu, í Svíþjóð og á Íslandi. Þá hefur hann leikið 33 leiki fyrir danska landsliðið.
Á Íslandi lék Adama fyrir Grindavík frá 2006 til 2008, en þá skilaði hann 12 stigum, 7 stoðsendingum og 2 stolnum boltum að meðaltali í leik.