Grindavík vann í kvöld gríðarmikilvægan sigur á Njarðvík í Subwaydeild kvenna. Lokatölur 67-73 þar sem Grindavík var við stýrið frá upphafi leiks. Njarðvíkingar hleyptu mikilli spennu í leikinn í fjórða og síðasta leikhluta en Grindvíkingar gerðu vel að halda forystunni og landa sigrinum.
Amanda Okudugha var stigahæst hjá Grindavík með 21 stig og 10 fráköst en Hulda Björk Ólafsdóttir stal senunni með frábærri frammistöðu með 15 stig og 2 fráköst. Hjá Njarðvík var Aliyah Collier atkvæðamest með huggulega þrennu er hún gerði 23 stig, tók 13 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.
Grindvíkingar fóru vel af stað og komust í 0-9 og leiddu svo 18-20 eftir fyrsta leikhluta. Amanda Okodugha var að finna sig vel hjá gestunum og Collier að sama skapi beittust í liði Njarðvíkinga. Opinn og ferskur fyrsti leikhluti sem Grindvíkingum virtist líka vel.
Meistarar Njarðvíkur voru ekki að finna fjölina fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrri hálfleik, 1-12 í þristum sem telst ekki gott fyrir lið sem er að skjóta að jafnaði á 30% nýtingu. Hulda Björk Ólafsdóttir var virkilega flott fyrir Grindvíkinga í öðrum leikhluta og var með 11 stig í hálfleik og leiddu gestirnir 32-42 í leikhléi.
Grindvíkingar virtust ætla að stinga af í síðari hálfleik, komust í 33-51 áður en Njarðvíkingar hófu sitt áhlaup. Þrátt fyrir að þristarnir harðneituðu að fara niður hjá Njarðvík í kvöld tókst þeim samt að minnka muninn í 50-55 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og galopnuðu þannig lokasprettinn.
Í fjórða leikhluta áttu Njarðvíkingar nokkrar heiðarlegar tilraunir til þess að jafna leikinn en Grindvíkingar hleyptu þeim ekki nærri. Gestirnir gerðu mjög vel að láta ekki heimakonur brjóta ísinn og uppskáru verðskulduð tvö stig í kvöld.