VÍS bikarúrslitaleikur Fjölnis og Hauka
Sjóðandi heitt Fjölnislið tekur fyrsta leikhluta
Fyrsti úrslitaleikur tímabilsins og aðstæður eins góðar og kostur er. Bein útsending og góður stuðningur frá fjölda stuðningsmanna. Fyrirfram hefði mátt ætla að reynslan og hefðin væri öll Haukamegin. Hins vegar er það þekkt að hungrið er oft meira hjá þeim sem aldrei hafa unnið áður sem er einmitt staða Fjölnis. Þetta er fyrsti úrslitaleikur Fjölnisstúlkna í efstu deild körfuboltans.
Leikurinn fer fjörlega af stað og alls enginn haustbragur á liðunum. Haustbragur er annars kurteisisleg leið til að lýsa múrsteinaframleiðslu tveggja liða sóknarmegin. Fjölnisliðið með frumkvæðið og rúmlega það. Ekkert úrslitastress sjáanlegt. Vagg og velta í sóknarleiknum opnar akstursleiðir fyrir Ciönu að körfunni. Sanja raðar niður löngum tvistum og Fjölnir lítur út fyrir að hafa yfirhöndina. Haukamegin virðist Haiden ekki vilja setja upp skot og gefur Fjölni með því tækifæri til að minnka völlinn fyrir aðra sóknarmenn Hauka. Góð og verðskulduð 29-21 forysta Fjölnisstúlkna, á 73% nýtingu utan af velli sem bæði frábært og ómögulegt að viðhalda út heilan leik, ef ótrúleg 78% nýting Villanova háskólans í úrslitaleik NCAA 1985 er undanskilin.
Haukavörnin og Haiden Palmer finnur fjölina sóknarmegin
Fjölnisstúlkur koma aftur vel tilbúnar. Ciani nýtir hraða sinn, sem er alveg svonefndur „gamechanger“. Helena setur fimm stig í röð og staðan 31-26 fyrir Fjölni. Vörnin hjá Haukum kemur Fjölnisstúlkum í vandræði og Haukar nálgast enn 31-28 og þjálfari Fjölnis tekur leikhlé.
Haukar koma betur út úr leikhléinu en liðið sem tók það. Þær halda áfram áhlaupinu. Haiden nær sér í gott lagskot (layup) og tekur síðan 24 sekúndna flautukörfu í teignum og Haukar komast yfir 32-31. Stemningin er alveg Haukamegin og nú reynir á karakter Fjölnisliðsins.
Vörn Hauka hleypir engu að körfunni og lok er á langskotin hjá Fjölni sem aðeins skora 2 stig á fyrstu fimm mínútunum og 55 sekúndunum. Hiden setur tvo þrista í röð og Fjölnir tekur annað leikhlé, staðan orðin 42-33 fyrir Haukum.
Fjölnisliðið kemur fjörlegt úr leikhléinu en Haukavörnin er sterk. Hinum megin kvartar Bjarni sáran yfir dómgæslunni og uppsker tæknivíti. Annar þristur frá Haukum, nú Eva, eykur forystu Hauka í 45-33 og Haiden bætir tvisti í safnið. Nú er stórhætta á að Fjölnir missi móðinn. Hin eldfljóta Ciani virðist í vandræðum með skotið utan af velli, nú þegar Haukar virðast hafa fundið hjálparvörnina og loka á leiðir hennar að hringnum.
Fjölnisstúlkur finna engar leiðir í gegnum Haukavörnina en það er loks Sanja sem finnur netið utan af velli. 49-35. Emma Sóldís hendir í þrist í næstu sókn og Bjarni og Ingvar vilja alls ekki „fyrsta-leikhluta-sprett“ og taka strax leikhlé fyrir Hauka.
Hún verður áhugaverð hálfleiksræðan hjá því Haukar fara í leikhléið með 52-38 forskot.
Lykilleikhluti fyrir Fjölni
Fjölnir byrjar á þristi og Haukar aftur orðnar hikandi í sókninni. Annar þristur Fjölnis og munurinn kominn í 8 stig. Hver stígur þá upp annar en Helena sem setur þrist 55-44. Dagný gerir frábærlega á millifærinu og minnkar muninn í 48-57. Gaman að sjá íslenskan leikmann sem skorar úr stökkskotum yfir vörnina. Bæði lið að gera vel en Haukar gefa ekki eftir mikið af forskotinu. 63-51 þegar helmingur leikhlutans búinn. Haukar sterkari og Tinna setur þrist, 66-51 þegar fyrstu skiptingar Haukamegin líta dagsins ljós.
Fjölnisstelpur herða vörnina og stela sendingum Hauka inn í teiginn. Sóknarleikur Hauka hikstar en Fjölnisliðinu gengur enn jafnilla að setja niður skotin gegn Haukavörninni. Þau skot sem fara niður eru skot með varnarmann í andlitinu. Haukar ná aftur að endurheimta hálfleiksforskotið og gott betur. Staðan 73-55 þegar 1:45 eftir af þriðja og maður hreinlega finnur loftið leka (sjálfstraustið) leka úr Fjölnisstúlkum.
Þegar staðan er tæp og fátt gengur er mikilvægt að klóra í bakkann áður en síðasti leikhluti hefst og Emma Sóldis gerir það með þristi og tveimur vítum. Hinum megin heldur vörnin og Haukar veita Fjölni tækifæri með því að brjóta þegar Fjölnir kominn í Bónus. Þegar hálf mínúta er eftir og staðan orðin 73-61 stígur vonbrjóturinn Helena Sverrisdóttir og smellhittir þristi og tryggir Haukum 76-61 forystu inn í síðasta leikhlutann.
Ná Haukar að „drepa“ leikinn eða fáum við endurkomu
Það er þekkt staða í úrslitaleikjum að takist liði með +10 stiga forskot að halda í horfinu fyrstu 3 mínútur síðasta leikhlutans þá eru níu af tíu fingrum komnir á titilinn. Haukar þurfa því aðeins að halda haus fyrstu mínúturnar, gefa ekkert auðvelt og titillinn verður þeirra.
Liðið sem er að elta verður að taka áhættu og era heppið á sama tíma. Fjölnir herðir vörnina og uppskera fjórar liðsvillur á fyrstu 120 sekúndunum. Augljóst og skýrt hættumerki fyrir þjálfarana og stuðningsmenn. Emma Sóldís setur þrist og heldur voninni lifandi þótt lítil sé.
Þegar þriggja mínútna markið er að fæðast taka þjálfarar Fjölnis leikhlé í stöðunni 81-64. Við erum algjörlega á „make or break momenti“ í leiknum. Fjölnisliðið þarf að koma sjóðandi aftur inn í leikinn og hafa heppnina með sér líka. Einn þristur eða auðveld karfa frá Haukum getur gert út um trú Fjölnis á endurkomu.
Fjölnisliðið kemur tilbúið og flott út úr leikhléinu. Setja 5 stig í röð og Haukar taka leikhlé. Nú mun reyna á getu og leikreynslu Helenu og Haiden. Viti menn, Helena setur Evu upp fyrir þrist í horninu sem dettur.
Fimm mínútna markinu náð og staðan 83-71. Vonin er veik en Haukar brjóta á Ciani í þrist og hún setur tvö. Tíu stiga múrinn ekki rofinn. Vörnin hjá Fjölni heldur og Ciani aftur á vítalínuna. Hún skilar öðru en nær að stela frákastinu. Munurinn orðinn 9 og ef Fjölnisstúlkur skora er pressan öll kominn á Hauka.
Dagný á vítalínuna þegar 3:23 eftir og setur bæði. Munurinn kominn niður í 7 stig. Nú skiptir hver karfa máli, , hvert frákast, hver tapaður bolti. Aftur senda Haukar Fjölni á línuna. Emma Sóldís setur bæði og munurinn 5 stig. Presan á Haukum er áþreifanleg en mesta og besta dráptól íslensks kvennabolta síðan Anna María Sveins, Helena Sverris skorar þrjú upp á gamla og góða mátann, setur tvö og víti að auki.
Haukar taka leikhlé í stöðunni 86-78 og Fjölnir í sókn. Tapaður bolti hjá Sönju og síðasta sénsins í leiðinni því Bríet setur þrist. Sönja bætir fyrir með tvist og staðan 89-80 þegar 1:45 eftir. Nú er þetta gott sem komið í höfn en Elísabet gulltryggir sigurinn með enn einum Haukaþristinum. Nú finna þær rauðu bragðið af bikarmeistaratitlinum 92-80 og innan við mínúta eftir. Hetjuleg og árangursrík pressa Fjölnis dugar ekki til. Hún kemur of seint og Haukar sigla þessu í höfn 94-89
Hvers vegna unnu Haukar
Helena Sverrisdóttir er engum öðrum íslenskum körfuboltamanni lík. Hún stýrir leik þess liðs sem hún leikur fyrir hverju sinni, bæði í sókn og vörn. Hún skilar alltaf flottum tölum í öllum merkilegustu tölfræðiþáttunum (26 stig, 9 fráköstum og 9 stoðsendingum) en það sem skilur hana frá öðrum leikmönnum, körlum sem konum, er að hún virðist alltaf finna leið til að skora þegar mest á reynir. Hún er sannkallaður vonarbrjótur.
Að þessu sögðu þá hafa Haukaþjálfarnir Bjarni og Ingvar náð að setja saman gríðarlega sterkt varnarlið í Hafnarfirðinum. Þegar sett eru saman vel skipulögð og grimm vörn og þú hefur í liði þínu leikmenn sem halda skipulagi og flæði sóknarlega eins og Helenu og Haiden (23 stig, 8 fráköst og 10 stoðsendingar) þá ertu með lið í höndunum sem mun spila um titla. Það verður saga Hauka þetta tímabilið.
Fjölnir hefur ekki sagt sitt síðasta orð
Fjölnisstúlkur eru til alls líklegar þetta tímabilið. Þær hefðu þurft jafnara framlag frá Sönju sem átti frábæran fyrsta leikhluta en skoraði síðan ekki aftur fyrr en á síðustu mínútunni. Þá þarf Ciani að sanna fyrir deildinni að hún geti sett niður skotin utan af velli. Annars er Fjölnisliðið afar vel mannað og líkur á því að þessi lið mætist aftur með titil að veði.
Umfjöllun / Jóhannes Albert Kristbjörnsson