Fjölnir og Haukar mætast kl. 16:45 í dag í úrslitum VÍS bikarkeppninnar.
Í undanúrslitum vann Fjölnir lið Njarðvíkur á meðan að Haukar báru sigurorð af Val.
Skallagrímur er ríkjandi bikarmeistari, þær unnu Geysisbikarinn árið 2020, en keppnin hefur síðan skipt um nafn og nú er leikið um VÍS bikarinn.
Karfan setti sig í samband við Rúnar Inga Erlingsson, þjálfara Njarðvíkur og spurði hann út í leik dagsins.
Hverju má búast við í úrslitaleiknum?
Ég býst við að bæði lið leggi allt í þennan leik þar sem það er alvöru bikar í boði. Haukaliðið er rosalega vel mannað og kannski það lið sem er komið lengst í sínum undirbúning. Þær bæta við sig svakalegri reynslu og yfirvegun í Helenu og Haiden og svo þekkir Sólrún allt þarna uppá 10 líka þannig liðið spilar mjög skynsaman og agaðan körfubolta sem ég held að sé alltaf árangursríkt.
Það verður klárlega aðeins meira stress Fjölnismegin – bæði er þetta fyrsti bikarúrslitaleikurinn í sögu félagsins og svo er Fjölnir að setja saman nýtt lið nánast. Fjölnir reyna að keyra upp hraðann og vilja sækja í transition og ef þær hitta vel fyrir utan 3ja stiga línuna getur allt gerst.
Hvernig fer hann?
Haukar vinna með 8 eftir hörkuleik !