spot_img
HomeFréttirDómaraþjálfun – hvar er planið?

Dómaraþjálfun – hvar er planið?

Í framhaldi af mjög góðri umræðu um dómaramálin á dögunum og starfsumhverfi körfuknattleiksdómara á Íslandi fór ég að velta fyrir mér hverjir „búi til“ dómara. Hverjir beri ábyrgð á því að hér þjálfist upp dómarar.

Það tíðkaðist að félög sendu áhugasama einstaklinga á námskeið og þeir dæmdu þá fyrir þau félög. Þá virtist vera sem ábyrgð á þjálfun dómara væri hjá félögunum. En síðan var þessari tilhögun hætt af einhverjum ástæðum,  dómarar dæma ekki lengur fyrir einhver félög. Það er mín tilfinning að við þessar breytingar hafi slitnað ákveðinn naflastrengur og ábyrgðin á dómurum og uppeldi þeirra, hafi lent einhversstaðar á milli vita. Voru þetta mistök? Ég man líka eftir því að félög þurftu að hafa ákveðinn fjölda dómara með réttindi innan sinna raða. Við innsendingu á þátttökutilkynningum þurfti að fylla út lista yfir starfandi dómara hjá félaginu. En þetta er liðin tíð, illu heilli að ég tel, menn hugsuðu þetta ekki alveg til enda mögulega.            

En í dag virðist vanta afgerandi plan. Hverjir bera ábyrgð á því að þjálfa upp dómara? Hvar er grasrót dómarastarfsins? KKÍ auglýsir dómaranámskeið yfirleitt með almennum hætti og reynir að ná til fjöldans þannig. Reynt hefur verið að höfða líka til erlendra einstaklinga sem mér finnst afar jákvætt og auglýsingarnar margar verið á ensku líka. En í mínum huga – og hefur verið lengi, lengi, þarf að leita í nákvæmlega sömu grasrót eftir dómurunum og leikmönnum. Grasrót hreyfingarinnar allrar er bara ein og hún er stór og viljug. Þar eru sjálfboðaliðarnir og yngriflokkastarfið / foreldrar. Þar er rétti jarðvegurinn að mínu mati.

Fjársjóðurinn felst í fjöldanum

Raunverulegur árangur yngriflokkastarfs er að allar æfingar séu fullar af iðkendum. Titlar hér og þar skreyta starfið og auka metnað afreksíþróttamanna, en fjöldi er það sem við þurfum á hverri æfingu. Félög tilnefna efnilega krakka í úrvalsbúðir þar sem þjálfarateymi KKÍ tekur við þeim og kortleggur til framtíðar. Eftir það tekur við skipulagt landsliðsprógram. Þetta er til háborinnar fyrirmyndar eins og einhver sagði.

Í fjöldanum leynist fjársjóður. 20 leikmenn mæta á hverja einustu æfingu. 5 af þeim verða virkilega góðir í körfubolta – sem eru reyndar mjög góðar heimtur. 5-7 verða góðir rulluspilarar sem öllum liðum er nauðsynlegt, en eftir standa 8-10 leikmenn sem eru og verða ekkert endilega afreksfólk í íþróttinni. Þarna er fjársjóðurinn. Þarna erum við – ef rétt er haldið á spilunum, með framtíðar stjórnarfólk, styrktaraðila, sjálfboðaliða og ekki síst dómara. Það er því afar mikilvægt að við höldum vel utan um allan hópinn, ekki bara þá sem skara fram úr.

Það þarf einhver að ver‘ann – Stjórnir og unglingaráð félaganna í lykilstöðu

Í vel skipulögðum félögum eru starfrækt unglingaráð. Þau hafa það skilgreinda hlutverk að halda utan um allt yngriflokkastarfið, ráða þjálfara, innheimta æfingagjöld, virkja foreldra, sjá um fjölliðamót, skipuleggja keppnisferðir og búa til faglega og félagslega umgjörð um starfið. Mörg félög hafa yfirþjálfara, sem leggja línurnar í faglega hlutanum, skipuleggja hvað á að kenna hvaða aldursflokki og smám saman byggist upp starf sem skilar leikmönnum í meistaraflokka og jafnvel lengra. Allt er sem sagt tipp-topp í faglega starfinu í flestum tilfellum. En hvar komum við dómarastarfinu inn í þetta umhverfi? Hér er nokkrum hugmyndum varpað fram:

  • Unglingaráð láta einn meðlim halda utan um dómarastarfið – sérstakan dómarafulltrúa. Hans helstu verkefni eru:
    • Að halda dómaranámskeið að hausti þar sem skyldumæting er fyrir leikmenn í t.d. 10. flokki. Í fyrsta skiptið sem þetta er haldið, þarf að fara ofar í aldri, en í grunninn gæti þetta verið sá árgangur sem hefði þessa skyldu.
    • Fyrir þátttökuna fá þessir einstaklingar dómaraflautu og dómaratreyju – hvort sem það yrði í samvinnu við forsvarsmenn dómara á Íslandi, eða bara tengt félaginu.
    • Þegar unglingaráð heldur fjölliðamót hvort sem það er hluti af Íslandsmóti eða opin mót, er þessum einstaklingum raðað niður á leiki. Þar mæta þau í dómaratreyjum, með alvöru dómaraflautur og strax komin ákveðin sýnileg virðing fyrir starfinu.
    • Inn á milli væri hægt að setja þessa einstaklinga inn á æfingar hjá yngri liðum félagsins og fá þá til að dæma leiki þar. Mikið óskaplega yrðu þjálfarar glaðir með þá ráðstöfun. Þarna getum við byrjað að ala á virðingu meðal ungra leikmanna gagnvart dómgæslu og kennt þeim hvað er rétt og hvað er rangt í samskiptum við dómara.
  • Þjálfun dómara er komið inn í afreksstefnu félaganna.
    • Þeir fá t.d. afslátt af æfingagjöldum ef þeir dæma ákveðið marga leiki.
    • Félögin hækka þátttökugjöld á mótum um 500 krónur og leggja það í dómarasjóð til að greiða dómurum mótsins smotterí fyrir þeirra vinnu.

Ég veit að nú hugsa margir að þetta sé sjálfboðaliða- og grasrótarstarf og því eigi ekki að þurfa að borga fyrir dómgæslu. Í draumaheimi væri það staðan. En lítum á þetta svona:

  • Í þessu felst hvatning, smá vasapeningur.
    • Það er erfitt að manna dómgæslu – eilífðar vandamál.
    • Dómarastarfið er launað starf, svo af hverju ekki að byrja þarna, af hverju ekki að byrja að fjárfesta í dómurum strax þarna?

Hlutverk þjálfara

Þjálfarar – sér í lagi þeir sem þjálfa eldri iðkendur yngriflokkanna eru í mjög góðri stöðu til að leggja hér hönd á plóg. Þeir þekkja karakter sinna leikmanna og geta hvatt þá til þess að skoða dómgæslu sem eina aðkomu að íþróttinni í framtíðinni.

Þeir ættu líka að þekkja til einstaklinga sem af einhverjum ástæðum hafa yfirgefið hreyfinguna og mögulega peppað þá upp til að koma inn aftur á nýjum forsendum.

Svo má alveg benda á þann möguleika líka að þjálfarar láti leikmenn sína dæma á æfingum. Frekar en að tveir sitji hjá þegar verið er að spila sem dæmi, gætu þeir gripið í flautu og hjálpað til. Þá kannski eykst skilningurinn líka á dómarastarfinu yfir höfuð og hægt að nota tækifærið og útskýra og kenna samskipti og framkomu við dómara. Byrja snemma, það hlýtur að skila sér til lengri tíma.

En hvað svo?

Ef félög eru svo heppin að eiga nokkra áhugasama einstaklinga sem vilja ná lengra í dómgæslunni, þarf að finna þeim verkefni við hæfi. Það er vissulega hægt á heimavelli, en með eðlilegri þróun og uppbyggingu dómara þurfa þeir krefjandi verkefni við hæfi. Þarna geta félög á sama landssvæði unnið saman og skipst á dómurum. Þegar komið er í elstu keppnisflokkana, gæti dómaranefnd KKÍ tilnefnt einn dómara frá sér og annar kæmi þá úr þessum svæðisbundna dómarapotti.

Alveg eins og fyrir leikmenn, þurfa dómarar meira krefjandi verkefni upp allan sinn feril. Þeir þurfa að ferðast á milli staða og landshluta til að svo megi verða. En þá þurfa félög að vera tilbúin  í þann „fórnarkostnað“ að fá til sín dómara úr öðrum landshluta – líka félögin á suðvesturhorninu.

Fjórir dómarar úti á landi

Í dag eru fjórir dómarar skráðir með heimili úti á landi, þ.e. utan stór-höfuðborgarsvæðisins sem er kannski innan við klukkutíma frá borginni. Fjórir. Þar af tveir í Skagafirði og tveir í Borgarnesi. Hvernig má það vera að landsbyggðavæn íþróttahreyfing eins og karfan, þar sem spilaðir eru gríðarlega margir leikir, skuli ekki vera betur búin dómurum?

Störukeppninni verður að ljúka – búum til plan

Ég upplifi einhverskonar störukeppni milli þeirra sem bera ábyrgð á stöðunni. Sú störukeppni kann að koma til vegna þess að allar áætlanir vantar, það veit enginn hvernig á að vinna þetta og það virðist enginn hafa áhuga á að taka af skarið.  En þetta krefst samvinnu. Ég hef hér lýst þeirri skoðun minni að uppbygging dómara eigi að hefjast í grasrót hreyfingarinnar. Við höfum ekkert og þurfum ekkert annað platform en það fyrir dómara. Þar er jarðvegurinn og þar þurfa forsvarsmenn félaga og KKÍ að sá fræjum. Það er ekki sjáanlega að gerast í dag og er þá hægt að vera hissa á því hvernig staðan er?

Ég skora á alla aðila málsins að setjast niður og búa til plan. Hér hef ég lýst í mjög grófum dráttum hugmyndum fyrir einstaka félög sem vilja gera betur. En eftir stendur ábyrgð KKÍ og dómaranefndar sambandsins og svo dómaranna sjálfra. Ef félögin vilja laga til hjá sér, þarf að koma skýr vilji til þess frá forsvarsmönnum hreyfingarinnar líka, það þarf einhversstaðar að mætast og það þarf að fastsetja áætlanir. Ég held að við gætum stigið risastórt skref Hugarfarsbreytingar er þörf að mínu mati, störukeppninni þarf að linna, menn þurfa að axla ábyrgð á stöðunni og búa til plan um uppbyggingu dómara – allir þeir sem sitja í kring um þetta borð.

/ Karl Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -