spot_img
HomeBikarkeppniStólarnir öruggir gegn Álftanesi í 16 liða úrslitum VÍS bikarkeppninnar

Stólarnir öruggir gegn Álftanesi í 16 liða úrslitum VÍS bikarkeppninnar

Körfuknattleiksvertíðin á Sauðárkróki hófst í kvöld þegar úrvalsdeildarlið Tindastóls tók á móti Álftanesi í VÍS-bikarkeppni karla.

Leikurinn fór rólega af stað hjá heimamönnum og Álftnesingar gengu á lagið og komust í 0-4 í byrjun leiks. Tindastólsmenn vöknuðu þó fljótlega af dvalanum og náðu 15-0 rispu og voru komnir í þægilega forystu að loknum fyrsta leikhluta, 30-12. Vörn heimamanna varð ákafari og Álftnesingum gekk illa að komast upp með boltann.

Forysta heimamanna hélt áfram að aukast í öðrum leikhluta og Baldur hreyfði liðið vel. Erlendir leikmenn Stólanna litu ágætlega út og Siggi Þorsteins og Arnar Björns sýndu gamalkunna takta. Innfæddir leikmenn liðsins komu einnig með góðar rispur og menn virtust almennt koma ágætlega undan sumri. Staðan 57-29 í hálfleik og formsatriði að klára leikinn.

Þriðji leikhluti var tíðindalítill en nokkur tilþrif sáust þó og tæplega 300 körfuboltaþyrstir áhorfendur í Síkinu fengu nokkuð fyrir sinn snúð. Tindastóll bætti örlítið við forystu sína fyrir leikslok en seinni hálfleikurinn var mun jafnari og ekki eins mikill ákafi í varnarleik heimamanna. Álftnesingar áttu ágætis spretti undir stjórn gamla refsins Hrafns Kristjánssonar og ljóst að liðið getur spilað ágætlega saman. Lokatölur 100-70 fyrir Tindastól.

Taiwo Badmus var atkvæðamestur heimamanna með 26 stig og 7 fráköst og átti nokkur skemmtileg háloftatilþrif sem glöddu áhorfendur í Síkinu. Baldur þjálfari taldi liðið vera að slípast ágætlega saman og var spenntur fyrir komandi leiktíð. Hjá gestunum var Friðrik Anton Jónsson langsprækastur með 22 stig og 9 fráköst og sýndi að hann kann leikinn mjög vel.

Hérna eru önnur úrslit kvöldsins

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir og viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -