Enn kynna Ármenningar nýja leikmenn sem leika munu með meistaraflokki Ármanns í 2. deildinni á næstu leiktíð. Í dag var tilkynnt að þeir Snjólfur Björnsson og Halldór Fjalar Helgason hefðu ákveðið að leika með Ármanni á komandi leiktíð.
Tilkynningu Ármanns má finna hér að neðan:
Við höldum áfram að kynna nýja leikmenn meistaraflokks karla hjá Ármann. Það er mikill heiður að tilkynna að þeir Snjólfur Björnsson og Halldór Fjalar Helgason hafa ákveðið að taka slaginn með liði Ármanns á komandi leiktíð.
Snjólfur Björnsson er 27 ára bakvörður sem er uppalinn hjá Snæfell. Síðustu ár hefur Snjólfur leikið með Val í efstu tveimur deildum. Þar ða auki hefur hann leikið með Breiðablik og Haukum. Snjólfur er kraftmikill bakvörður sem lék 12 leiki með Val í Dominos deildinni á síðustu leiktíð.
Halldór Fjalar Helgason er 21. árs vængmaður sem leikið hefur með Hrunamönnum allan sinn feril þar sem hann er uppalinn. Á síðustu leiktíð var hann með 3,3 stig að meðaltali í 1. deild karla.
Það styttist í að tímabilið hefjist en fyrsti leikur tímabilsins er þann 24. september næstkomandi. Leikmannahópur Ármanns er nú tilbúinn fyrir komandi leiktíð og mikil spenna í mannskapnum fyrir komandi átök.