Norðurlandamóti undir 18 ára drengja og stúlkna lauk í dag í Kisakallio í Finnlandi. Sigrarnir voru fleiri hjá undir 18 ára liði stúlkna þetta árið, en þrátt fyrir það sýndu drengirnir oft lipra takta.
Undir 18 ára stúlknaliðinu tókst að enda í öðru sæti, en þær sigruðu Eistland, Danmörku og Svíþjóð. Eina liðið sem þær töpuðu fyrir var Norðurlandameistarar Finnlands, sem fór taplaust í gegnum mótið. Merkilegur árangur fyrir margar sakir, en líklega ekki síst í sögulegum skilning, því íslenskir undir 18 ára hópar ná sjaldnast slíkum árangri á Norðurlandamótinu. Því má að einhverju leyti vera spenntur fyrir komandi tímum hjá kvennalandsliði Íslands, því þessar hæfileikaríku stúlkur eiga án alls vafa eftir að verða komnar á það stig fyrr en seinna.
Hérna er meira um stúlknaliðið á NM 2021
Hérna er meira um drengjaliðið á NM 2021
Mótið var öllu erfiðara fyrir undir 18 ára lið drengja. Þrátt fyrir að eiga í fullum tygjum á löngum köflum við mótherja sína á mótinu, voru tapleikirnir þrír og aðeins einn sigur var það sem kom á fyrsta degi gegn Eistlandi. Hæfileikaríkir drengir þó, sem munu án vafa taka þessa viku af æfingum og keppni, smella henni í reynslubankann og mæta fílefldir , ekki ef, heldur næst þegar að þeir klæðast íslensku landsliðstreyjunni.
Gaman var að sjá að bæði Almar Orri Atlason og Elísabeth Ýr Ægisdóttir voru valin í fimm manna stjörnulið mótsins þetta árið, en bæði skiluðu góðum einstaklingsframmistöðum í leikjunum fjórum. Almar Orri með 14 stig, 8 fráköst og 2 stoðsendingar að meðaltali og Elísabeth Ýr skilaði 8 stigum, 8 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik.
Enn eiga nokkur viðtöl og viðbrögð eftir að berast inn á Körfuna frá leikmönnum og starfsmönnum liðanna af mótinu og gert er ráð fyrir að það muni allt skila sér á næsta sólarhringnum.
Karfan vill þó nota þetta tækifæri til þess að þakka Körfuknattleikssambandinu, stjórninni og starfsmönnum, sérstaklega afreksstjóranum Kristni Geir Pálssyni fyrir stuðninginn og samstarfið bæði þetta árið, sem og öll þau ár sem á undan hafa farið. Því það er vissulega svo að Karfan láti af hendi sjálfboðaliða í verkefnið á hverju ári, en án trausts og vilja til samstarfs frá þeim væri miðillinn ekki að sinna því starfi að fylgja þessum efnilegu krökkum eftir.