spot_img
HomeFréttirÍsland tryggði sig áfram úr forkeppninni með glæsilegum sigri á Dönum

Ísland tryggði sig áfram úr forkeppninni með glæsilegum sigri á Dönum

Íslenska karlalandsliðið tryggði sig í kvöld áfram í undankeppni HM 2023 með sigri á Danmörku í Podgorica í Svartfjallalandi, 73-89. Liðið hefur því unnið báða leiki sína gegn Danmörku og verður annað tveggja liða sem fara áfram úr þessum þriggja liða riðil, sama hvernig leikur Svartfjallalands og Danmerkur fer á morgun.

Íslensku strákarnir mættu tilbúnir til leiks og leiddu með 8 stigum eftir fyrsta leikhluta, 18-26. Undir lok fyrri hálfleiksins náðu þeir svo að halda í það forskot, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 39-47 fyrir Ísland.

Í upphafi seinni hálfleiksins má segja að Ísland hafi farið langleiðina með leikinn. Vinna þriðja leikhlutann nokkuð örugglega og eru 19 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 51-70. Í honum gera þeir svo nóg til að sigla öruggum sigri í höfn, 73-89.

Atkvæðamestur fyrir Ísland í dag var Elvar Már Friðriksson með 21 stig og 8 stoðsendingar. Þá bætti Ægir Þór Steinarsson við 17 stigum og 7 stoðsendingum.

Ísland er því komið áfram með Svartfjallalandi úr riðlinum á meðan að Danmörk situr eftir með sárt ennið. Næstu leikir Íslands eru í nóvember, en enn á eftir að skera úr um gegn hvaða liðum verður leikið þá í undankeppninni.

Tölfræði leiks

Upptaka af leiknum:

Fréttir
- Auglýsing -