Undir 16 ára drengjalið tapaði fyrir Eistlandi í dag í sínum fyrsta leik á Norðurlandamóti þessa árs í Kisakallio í Finnlandi, 66-59.
Gangur leiks
Bæði lið komu með mikla orku inn í leik dagsins. Á upphafsmínútunum tekst Íslandi þó að vera skrefinu á undan, leiða eftir fyrsta leikhluta með 3 stigum, 12-15. Undir lok fyrri hálfleiksins missir ísland svo aðeins tökin á leiknum og hleypa Eistlandi í forystu. Fjögur stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-30, sem hefði vel geta verið meira.
Þriðji leikhlutinn var ansi erfiður hjá Íslandi, setja aðeins 9 stig á töfluna á meðan að Eistland skorar 17. Liðið því 12 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 51-39, en það var mesti munurinn á liðinum í leiknum til þessa. Með góðu áhlaupi á lokamínútum leiksins kemur Ísland forystu Eistlands niður í 4 stig, 60-56. Lokasekúndurnar voru svo spennandiþrátt fyrir að Ísland hafi alltaf verið rétt rúmlega körfu frá þeim. Niðurstaðan 66-59 sigur Eistlands.
Kjarninn
Það vantaði ekki mikið uppá hjá Íslandi í dag. Skutu boltanum betur, fráköstuðu betur og voru heilt yfir annars alveg á pari við andstæðingana. Kannski helst hægt að klaga upp á þá að hafa ekki passað boltann nógu vel. Verður spennandi að sjá þá eiga við sterkt lið Finnlands á morgun.
Tölfræðin lýgur ekki
Líkt og með stúlknaliðið fyrr í dag voru það tapaðir boltar sem voru erfiðir fyrir drengina. Tapa í heildina 32 boltum í leiknum á móti aðeins 18 töpuðum hjá Eistlandi.
Atkvæðamestir
Tómas Valur Þrastarson var atkvæðamestur í liði Íslands í dag með 19 stig, 10 fráköst og 2 stoðsendingar. Þá bætti Kristján Fannar Ingólfsson við 16 stigum og 6 fráköstum.