spot_img
HomeÚti í heimiFyrsta tap Bandaríkjanna síðan 2004

Fyrsta tap Bandaríkjanna síðan 2004

Frakkar unnu Bandaríkin í fyrstu umferð körfubolta karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag en þetta var fyrsta tap þeirra síðarnefndu á Ólympíuleikum síðan 2004.

Bandaríska liðið hóf leikinn talsvert betur og leiddi 22-15 eftir fyrsta leikhluta og 45-37 í hálfleik. Frakkar tóku öll völd í þriðja leikhluta þar sem tvíburaturnarnir Vincent Poirier og Rudy Gobert öllu Bandaríkjamönnum miklum erfiðleikum með varnartilburðum sínum.

Bandaríkjamenn náðu þó tökum á leiknum aftur í fjórða með frábærum leik Jrue Holiday og leiddu 74-67 þegar innan við fjórar mínútur voru eftir. Líkt og þegar liðin mættust á HM fyrir tveimur árum þá voru lokamínúturnar eign Frakka og enduðu þeir leikinn á 16-2 áhlaupi á meðan Bandaríkjamönnum virtust allar bjargir bannaðar en þeir klikkuð meðal annars á fimm skotum í sömu sókninni á lokamínútunni. Þegar liðin mættust fyrir tveimur árum þá leiddu Bandaríkin einnig 74-67 þegar skammt var til leiksloka áður en Frakkar kláruðu leikinn á 22-5 áhlaupi og komu í veg fyrir allar vonir Bandaríkjanna um verðlaun.

Evan Fournier var langbesti maður vallarins en hann skoraði 28 stig í leiknum, meðal annars þriggja stiga körfuna sem kom Frökkum yfir undir lokin. Rudy Gobert kom næstur með 14 stig og Nando De Colo var með 13 stig.

Hjá Bandaríkjamönnum var Jrue Holiday stigahæstur með 18 stig og Bam Adebayo var með 12 stig og 10 fráköst. Stórstjörnurnar Damian Lillard og Kevin Durant hafa oft spilað betur en Lillard var með 11 stig og Durant 10, en hann lenti fljótt í villuvandræðum í leiknum.

Tölfræði leiksins

Önnur úrslit í dag
Íran 78-84 Tékkland
Þýskaland 82-92 Ítalía
Ástralía 84-67 Nígería

Fréttir
- Auglýsing -