Hin efnilega Agnes Fjóla hefur samið við CB Nou Basquet Paterna á Spáni um að leika með ungmennaliði þeirra næstu tvö árin, en félagið er í samstarfi með Valencia. Stafestir leikmaðurinn þetta við Körfuna nú í morgun.
Agnes sem að upplagi er úr Njarðvík hefur síðustu ár leikið með yngri flokkum Keflavíkur, sem og með meistaraflokkum bæði í Grindavík og með Stjörnunni. Þá er hún hluti af undir 16 ára lokahóp Íslands fyrir verkefni sumarsins. Á 20 mínútum spiluðum að meðaltali í fyrstu deildinni á síðasta tímabili skilaði hún 6 stigum, 3 fráköstum og 3 stoðsendingum í leik.
Samkvæmt Agnesi Fjólu mun hún fara í tveggja ára framhaldsskóla á Spáni meðfram því að leika körfubolta. Gerir hún ráð fyrir að fara út á fyrstu vikum ágústmánaðar, en tímabilið fer af stað þar þann 21. ágúst. Hún mun því verða ein þriggja íslenskra leikmanna sem verða úti í Valencia á næsta tímabili, en fyrir eru þar Hilmar Smári Henningsson, sem leikið hefur með ungmennaliði Valncia og Martin Hermannsson, sem er hjá meistaraflokki sama félags.