Annar leikur úrslitaeinvígis Dominos deildar karla fer fram í kvöld þegar að Þór Þ tekur á móti Keflavík í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn.
Þórsarar leiða einvígið eftir fyrsta leikinn er liðið vann nokkuð óvæntan 73-91 sigur í Keflavík. Liðið getur því komið sér í góða stöðu í einvíginu með sigri í kvöld og þrýst þar með Keflavík upp við vegg.
Keflavík varð deildarmeistari og hefur nú unnið 18 leiki í röð. Síðasti tapleikur liðsins var í tapi liðsins gegn Val þann 12. febrúar síðastliðinn. Það var í 10. umferð deildarkeppninnar. Keflvíkingar hafa sópað báðum einvígum sínum í úrslitakeppninni hingað til, í átta liða úrslitum gegn Tindastól og í undanúrslitum gegn KR.
Þór Þ endaði í öðru sæti deildarinnar og komu á óvart ítrekað í vetur. Flestir höfðu spáð þeim neðarlega í deildinni en hafa algjörlega troðið sokk í alla sem héldu því fram með frammistöðu sinni síðustu mánuði. Í átta liða úrslitum mætti liðið Þór Ak og vann það einvígi 3-1. Í undanúrslitum unnu Hafnarbúar svo Stjörnuna í oddaleik í stórskemmtilegu einvígi.
Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari 2021 og rífur þar með sigurgöngu KR sem hafa unnið sex titla í röð og handhafi titilsins í sjö ár. Þór Þ getur unnið sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögunni en Keflavík getur bætt þeim tíunda í safnið.
Leikur dagsins
Dominos deild karla:
Keflavík – Þór Þ – kl. 20:15