spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaGrindavík meistari í fyrstu deild kvenna

Grindavík meistari í fyrstu deild kvenna

Mögnuð endurkoma eftir að hafa lent 2-0 undir – Njarðvík verður boðið sæti í úrvalsdeild

Grindavík er meistari í 1. deild kvenna eftir frækinn sigur á Njarðvík í einu af besta einvígi allrar úrslitakeppninnar. Grindvíkingar lentu 2-0 undir en unnu svo þrjá næstu leiki og oddaleikinn 68-74. Viðlíka endurkomur sjást ekki oft í úrslitakeppninni, fátítt en skýtur upp kollinum endrum og eins.

Grindavík mun því leika í úrvalsdeild kvenna á næstu leiktíð en Hannes S. Jónsson staðfesti við Karfan.is í kvöld að Njarðvík yrði einnig boðið sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Láru Ingi Magnússon aðstoðarþjálfari Njarðvíkur sagði í viðtali eftir leik að vissulega vildi Njarðvík hafa unnið fyrir sætinu en gerði ekki ráð fyrir öðru en að þetta góða boð yrði þegið af hálfu Njarðvíkinga.

Að leiknum sjálfum þá voru Grindvíkingar við stýrið í dag. Heimakonur í Njarðvík fóru ansi oft illa með færin sín og tókst ekki í lokaatlögunni að jafna metin og því fagnaði Grindavík sigri.

Grindvíkingar leiddu 40-45 í hálfleik þar sem Natalía Jenný Lucic fór á kostum með 17 stig fyrstu 20 mínúturnar og funheit utan af velli.

Grindavík komst í 4-9 en 9-0 áhlaup Njarðvíkinga breytti stöðunni í 13-9. Gestirnir mættu þá með sitt eigið 3-11 áhlaup og leiddu 16-20 eftir fyrsta hluta.

Fyrstu fimm mínútur annars leikhluta náði Grindavík að auka muninn í 10 stig, 23-33 en Njarðvíkingar unnu síðustu fimm mínúturnar 17-12 þar sem Lára Ösp setti niður tvo þrista með skömmu millibili en Grindvíkingar leiddu 40-45 í hálfleik.

Helena Rafnsdóttir og Chelsea Jennings voru báðar með 10 stig í hálfleik hjá Njarðvík en Helena var auk þess með 6 fráköst og var besti leikmaður heimakvenna í fyrri hálfleik. Hjá Grindavík var Natalía Jenný Lucic frábær með 17 stig og 3 fráköst og Janno með 11. ‘

Í þriðja leikhluta hélt Grindavík þetta um 10 stiga forystu lengst af og staðan 53-62 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og Helena Rafnsdóttir komin með 4 villur í liði Njarðvíkinga.

Njarðvíkingar gerðu sér margt erfitt fyrir í kvöld, vítanýtingin var döpur og bunkinn allur af sniðskotum vildi ekki rata rétta leið. Í síðari hálfleik tóku Janno, Hekla og Hulda Björk við stigakeflinu hjá Natalíu Jenný en Chelsea Jennings var ekki búin að syngja sitt síðasta og tók Njarðvíkinga í fangið, setti sex stig í röð og heimakonur minnkuðu muninn í 63-66.

Njarðvík komst ekki nærri og Hulda Björk Ólafsdóttir gerði endanlega út um leikinn fyrir Grindavík þegar hún sökkti tveimur vítum og kom gestunum í 66-72 með 22 sekúndur eftir af leiknum. Lokatölur reyndust svo 68-75 eins og áður greinir.

Það er vel við hæfi að hrósa báðum liðum fyrir magnaða seríu, einkum og sér í lagi Grindvíkingum sem vinna eftir að hafa lent 2-0 undir en slíkt er afar fátítt og skráist sem mikið afrek.

Stigaskor:
Janno Otto var með 23 stig og 14 fráköst í liði Grindavíkur. Natalía Jenný Lucic bætti við annarri tvennu með 17 stig og 10 fráköst. Hekla Eik Nökkvadóttir gerði 14 stig og þá bætti Hulda Björk Ólafsdóttir við 12 stigum. Hjá Njarðvík var Chelsea Jennings stigahæst með 25 stig og 12 fráköst og Helena Rafnsdóttir bætti við 14 stigum og 10 fráköstum.

Tölfræði leiksins
Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -