Hamar og Vestri mættust í gærkvöldi í fyrsta leik í úrslitaeinvígi 1. deildar karla um laust sæti í efstu deild. Hamar hafði yfirhöndina mest allan leikinn og hafði að lokum sigur úr bítum, 88-79 og tekur þar með forustuna í einvíginu.
Fyrir leikinn hafði Vestri unnið 9 leiki í röð, þar á meðal alla leiki liðsins í úrslitakeppninni hingað til. Hamar hefur hinsvegar átt í smá vandræðum undanfarið, ekki síst eftir að Michael Philips yfirgaf liðið á dögunum. Það eru hinsvegar fá lið sem þekkja það betur að spila í úrslitum 1. deildar en Hamar, en liðið hefur komist í sex af síðustu níu úrslitaeinvígum deildarinnar. Má því búast við áhugaverðu einvígi á milli liðanna.
Leikurinn sjálfur var jafn framan af, en Hamarsmenn voru alltaf skrefinu framar. Vestri var þó aldrei langt undan, en auðséð var að liðið hefur yfirhöndina undir körfunni með Nemanja Knezevic þar fremstan í flokki. Staðan í hálfleik var 45-44.
Vestri komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og náðu fljótt forustu 45-48. Hamarsmenn hleyptu þeim þó ekki lengra framúr og var jafnræði með liðunum næstu mínútur. Þegar 3. leikhluti var hálfnaður var staðan 53-54, Vestramönnum í vil. Urðu þá algjör kaflaskil í leiknum þar sem Hamar tók völdin á vellinum með 27-8 kafla. Staðan í lok 3. leikhluta 69-62.
Í 4. leikhluta hélt Hamar áfram frá því sem var horfið úr 3. leikhluta, en mikil stemming var í leik heimamanna sem náðu að byggja upp góða forustu, 80-62, þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Hjá Hamri var liðsheildin ráðandi, en sérstaka athygli vakti góð innkoma Maciek sem lét vel til sín finna undir körfunni sem og fyrir utan þriggja stiga línuna. Vestra gekk á þessum tímapunkti afleitlega að koma boltanum í körfuna, þrátt fyrir fín færi. Vestramenn hresstust þó lítillega þegar leið á leikhlutann, en þó aldrei þannig að leikurinn næði að vera almennilega spennandi og að lokum lauk leiknum með sigri Hamars, 88-79.
Næsti leikur liðanna er á Ísafirði n.k. laugardag kl. 19:15 og má búast við hörku leik þar.
Umfjöllun, viðtöl / Reynir Þór