Það var sannkölluð veisla í Gjánni í kvöld þegar Selfoss mætti Hamri í öðrum leik liðanna í undanúrslitum 1. deildar karla. Alvöru umgjörð með hamborgaraveislu fyrir leik, trommuslætti og stemmningu í stúkunni. Leikurinn bauð upp á flest það skemmtilegasta; hraða, mistök og glæsitilþrif bæði í vörn og sókn. Eftir að Hamar leiddi 17-21 eftir fyrsta leikhluta tók Selfoss nánast öll völd og hélt þeim til loka, vann alla hina þrjá hlutana örugglega og leikinn með 20 stigum, 97-77, og jafnaði þar með stöðuna í einvíginu, 1-1. Liðin mætast næst í Hveragerði á mánudaginn, 24. maí, kl. 19:15.
Leikurinn var jafn fram á 17. mínútu þegar stóð 33-33 en eftir það greip Flóafákurinn flugaskeiðið, skildi Hvergerðinga, sem hlupu upp á miðjum spretti, eftir í rykinu og kom í mark á fínum tíma.
Það er eiginlega með ólíkindum hve öruggur sigur Selfyssinga var, í ljósi þess að liðið tapaði 23 boltum, hvorki meira né minna, og skoraði samt 97 stig!!! Tölfræðisamanburðurinn er heimaliðinu í hag á nánast öllum vígstöðvum, leikmenn hittu mjög vel, sumir allan tíman en aðrir duttu í gírinn í seinni hálfleik. Selfoss skaut 45% af þriggjastigafæri og 55% alls, en sambærilegar tölur Hamars eru 24% og 38%. Fráköstin vann Selfoss 43-33, stoðsendingar 31-18 og liðsframlag 127-78.
Pálmi Geir var bestur leikmanna Hamars með 18 stig og 11 fráköst, en það munaði mikið um að nú hitti hann 0/5 af þriggjastigafæri miðað við 3/3 í síðasta leik. Ragnar Jósef hélt Hamarsliðinu inni í leiknum í fyrri hálfleik með frábærri hittni en fór alveg úr sambandi í þeim seinni. Hann skoraði 16 stig, eins og Lutterman, sem nú var bara með 3 fráköst, og munar um minna. Medina skoraði nú aðeins10 stig en gaf 11 gullfallegar stoðsendingar. Steinar Snær (7), Óli Gunnar (5) og Maciek (5) skoruðu það sem upp á vantar.
Hinn 18 ára gamli Kennedy Clement var alveg magnaður. Hann hitti 6/6 af þriggjastigafæri, skoraði 25 stig, tók 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar, 37 framlagspunktar og +23!!! Arnór Bjarki hrökk heldur betur í gang í seinni hálfleik, hitti þá nánast úr öllu eftir erfiða byrjun þegar boltinn skrúfaðist upp úr, og endaði með 22 stig. Terrance var góður og réðu Hamarsmenn ekki vel við hann undir körfunum. Hann setti 20 stig, tók 11 fráköst og gaf 7 stoðsendingar, semg gaf 32 framlagspunkta og +22. Kristijan skoraði 13 stig og hitti vel. Hann dældi út 12 stoðsendingum og tók 4 fráköst. Svavar Ingi skilaði góðum mínútum og 7 stigum, Sveinn Búi 6 stigum og 11 fráköstum og Owen og Gunnar settu báðir 2 stig.
Það er gaman á heimavelli en liðið sýndi það í Hveragerði um daginn að það er vel hægt að vinna þar líka. Ef leikmönnum tekst að minnka fimbulfambið og vanhugsaðar sendingar, skera tapaða bolta niður í raunhæfa tölu, þá eru allir vegir liðinu færir. Að ekki sé talað um ef stuðningsmenn fjölmenna í Frystikistuna og láta í sér heyra.
Umfjöllun / Gylfi Þorkelsson
Mynd / Selfoss Karfa