Á 110 ára afmælisdegi Vals var leikið til úrslita Í Origo höllinni um Íslandsmeistaratitil B liða. Þar mættust sjálft móðurskipið Valur B og Njarðvík B en liðin voru efst í 2. deildinni þegar deildin fór í stopp vegna Covid. Bæði lið eru ágætlega mönnuð og bauð leikurinn oft upp á lipra takta og á stundum skemmtilegan körfubolta.
Það var hart barist frá fyrstu mínútu og greinilegt að bæði lið vildu krækja sér í bikar og medalíur. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 22-19 en liðin skiptust níu sinni á forystu í þeim leikhluta. Í upphafi annars leikhluta náði móðurskipið hins vegar yfirhöndinni og fór með 16 stiga forystu inn í hálfleikinn 48-32. Vörnin var að halda nokkuð vel sem sást meðal annars á villum liðsins sem voru í öllum regnbogans litum. Einhver beturvitringur vildi reyndar halda því fram að allar þessar villur hefðu með það að gera að menn væru ekki að nenna að hreyfa lappirnar. Sá var strax skotinn í kaf enda liðið með 16 stiga forystu og andstæðingurinn hafði aðeins náð að skora 32 stig.
Njarðvíkurdrengir gerðu nokkur áhlaup í þriðja og fjórða leikhluta en höfðu ekki erindi sem erfiði. Vörnin hélt áfram að vera nokkuð sterk og sóknin á löngum köflum líka. Valur hirti því bikarinn að lokum með 85-65 sigri – vel gert! Frábær endir á afar erfiðum vetri í 2. deildinni í körfuboltanum. Benedikt Blöndal fór fyrir móðurskipinu og var með 18 stig og 26 framlagspunkta. Hjá Njarðvíkurdrengjum var Veigar Páll Alexandersson allt í öllu og setti 28 stig og tók 11 fráköst. Mikið efni þar á ferð.
Stigaskor Vals:
Benedikt Blöndal 18 stig/4 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 15 stig/6 fráköst, Egill Jón Agnarsson 13 stig, Finnur Atli Magnússon 11 stig/5 stig, Ástþór Atli Svalason 10 stig/8 fráköst/6 stoðsendingar, Illugi Steingrímsson 7 stig/9 fráköst, Bergur Ástráðsson 7 stig og Snjólfur Björnsson 4 stig.
Stigaskor Njarðvíkur:
Veigar Páll Alexandersson 28 stig/11 fráköst/4 stolnir, Hermann Ingi Harðarson 9 stig, Baldur Örn Jóhannesson 6 stig/5 fráköst, Guðjón Karl Halldórsson 6 stig, Gunnar Már Sigmundsson 5 stig/10 fráköst, Eyþór Einarsson 4 stig, Elías Bjarki Pálsson 4 stig og Bergvin Einir Stefánsson 3 stig/6 fráköst
Umfjöllun / Valur FB – Grímur Atlason
Myndir / Guðlaugur Ottesen Karlsson