spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaHamarinn gnæfir yfir Hrunann

Hamarinn gnæfir yfir Hrunann

Leikur Hrunamanna gegn Hamri í 8 liða úrslitum 1. deildar karla varð aldrei spennandi. Á meðan Hrunamenn keppa ekki að neinu nema hægri uppbyggingu körfuboltans í Uppsveitum Suðurlands á Hamar nokkra möguleika á að vinna sér sæti í úrvalsdeild að ári. Fyrri leikur liðanna í Hveragerði um liðna helgi unnu Hamarsmenn með miklum mun. Hamar hvíldi einn sinn besta og traustasta mann, Pálma Geir Jónsson. Orri Ellertsson var utan hóps hjá Hrunamönnum.

Eftir að Hrunamenn sendu leikstjórnandann Corey Taite frá sér hafa andstæðingar þeirra mætt uppspili liðsins með hápressu. Það gerðu Hamarsmenn í síðasta leik. En í þessum leik geymdu þeir það vopn uppi í erminni þar til um miðjan fyrsta leikhlutann. Þá stóðu leikar enn jafnir. Við hápressuna riðlaðist leikur heimamanna um stund en þeir leystu þann vanda tiltölulega fljótt og fyrsti leikhluti var ágætlega leikinn af þeirra hálfu þrátt fyrir að mótherjinn frá Hveragerði tefldi fram sínu sterkasta liði. Þórmundur Smári Hilmarsson, miðherji Hrunamanna, fékk opin skotfæri trekk í trekk. Þórmundur er ágæt skytta og hitti vel í fyrri hálfleik. Jose Medina Aldana var allt í öllu í sóknarleik Hamars og skoraði 12 stig í fyrsta leikhluta og sprengdi vörn Hrunamanna upp og bjó þannig til skotfæri fyrir samherjana. Hamarsmenn voru heldur kraftmeiri og hraðari en heimamenn og leiddu verðskuldað eftir fyrsta leikhluta 17-28.

Áfram fór mest fyrir Jose í sóknarleik Hamars í öðrum leikhluta. Hann var kominn með 21 stig á töfluna í hálfleik. Þórmundur hjá Hrunamönnum var með 16 stig í hálfleik og stóð sig eins vel í öðrum leikhluta og í þeim fyrsta, bæði í vörn og sókn. Hávöxnu Hamarsmennirnir, Ruud Lutterman og Óli Gunnar Geirsson, réðu ekkert við hann. Það var ekki fyrr en Selfyssingurinn í liði Hamars, Maicek Klimaszewski, var settur Þórmundi til höfuðs sem skrúfað var fyrir nýtingu Þórmundar sem skoraði aðeins einu sinni í seinni hálfleik. Maicek staðsetur sig vel og kann að vinna með fótunum inni í teig, sem er fágætur eiginleiki stórra íslenskra leikmanna í 1. deildinni. Maicek var góður í báðum leikjum einvígisins. Eyþór Orri Árnason, leikstjórnandi Hrunamanna, lék vel í 2. leikhluta og Halldór Fjalar Helgason sömuleiðis. Staðan í hálfleik var 32-53.

Í seinni hálfleik hvíldi Maté Dalmay þjálfari Hamars flesta lykilleikmenn Hamars. Hann prófaði svæðisvörn um tíma. Það tók taktinn úr sóknarleik Hrunamanna um stund en þó fór það fljótt þannig að þeir skoruðu í hverri sókn. José lék fyrstu mínútur seinni hálfleiksins og var frábær í sókn á þeim tíma. Hann hætti reyndar alveg að spila vörn. Árni Þór leitaði allra mögulegra leiða til þess að stöðva Jose. Það gekk illa að láta þrautseiga baráttuhunda dekka hann, lítið skár að mæta honum með kvikum og léttum varnarmönnum en allra verst þegar sterku kraftframherjarnir reyndu sig gegn honum. Jose var besti maður vallarins á meðan hans naut við. Á aðeins 18 mínútum skilaði hann 29 framlagspunktum, 26 stigum og 7 stoðsendingum.

Varnarlega veiktist Hamarsliðið mikið við það að Maté þjálfari hvíldi byrjunarliðsmenn sína, en sóknarlega var lítinn mun að sjá á leik liðsins, þ.e. framan af síðari hálfleiknum. Steinar Snær Guðmundsson lék á als oddi og var sprækur á sóknarhelmingnum. Þar er á ferðinni fljótur og útsjónarsamur leikmaður sem skemmtilegt verður að fylgjast með í framtíðinni. Þótt Óli Gunnar hefði átt í vandræðum gegn Þórmundi Smára í fyrri hálfleik stóð hann sannarlega fyrir sínu og var með bestu mönnum vallarins, tók m.a. 19 fráköst og átti þátt í að halda Þórmundi og Yngva Frey Óskarssyni niðri í seinni hálfleik.

Bæði lið luku leik með unga leikmenn á vellinum. Flestir eru þeir nemendur Chris Caird í Körfuboltaakademíu Selfoss og Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þó ekki allir, – tveir þeirra eru enn í grunnskóla! Hrunamenn enduðu leikinn með 5 leikmenn á vellinum sem allir eru í æfingahópum yngri landsliðanna þetta árið; Eyþór Orra, Aron Erni og Hring Karlsson í U-18, Óðin Frey í U-16 og Tristan Mána Morthens í U-15. Framtíð körfuboltans á Suðurlandi er björt.

Stigahæstir í liði Hamars voru José með 26 stig, Steinar Snær með 16, Ragnar Jósef með 13 og Ragnar Magni með 11. Hjá Hrunamönnum skoraði Þórmundur Smári 18 stig, Hringur 10 og Eyþór Orri 8.

Einvíginu er lokið. Hamar fer áfram í næstu umferð þar sem þeir bíða eftir hver mótherji þeirra verður, en bæði einvígi Skallagríms og Álftanes, sem og einvígi Selfoss og Sindra fóru í oddaleiki.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Karl Hallgrímsson

Fréttir
- Auglýsing -