spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKeflvíkingar sterkari í Síkinu - Tindastóll tapaði sínum öðrum heimaleik í röð

Keflvíkingar sterkari í Síkinu – Tindastóll tapaði sínum öðrum heimaleik í röð

Tindastóll tók á móti Keflavík í Subway deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

Liðin mættust í opnunarleik deildarinnar í Keflavík í haust þar sem heimamenn höfðu nauman sigur og von var á spennandi leik.

Leikurinn byrjaði enda mjög jafnt og liðin skiptust á höggum í bókstaflegum skilningi því hart var barist um hvern einasta bolta. Heimamenn í Tindastól komust yfir með góðum þristum frá Drungilas og Ragnari Ágústs og komust svo í 7 stiga forystu 20-13 þegar rúmar 2 mínútur lifðu af fyrsta leikhluta. Gestirnir svöruðu með 8-0 áhlaupi og komust yfir en góð karfa frá Zoran gaf heimamönnum 22-21 forystu að loknum fyrsta leikhluta. Sama baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta, heimamenn náðu að rykkja aðeins frá en Halldór Garðar kom inn með mikla baráttu fyrir gestina og sá til þess að leikurinn varð fljótt jafn aftur. Tvö víti frá Zoran sáu til þess að heimamenn fóru inn í leikhléið með 2 stiga forystu 45-43.

Þriðji leikhluti hefur oft reynst heimamönnum erfiður í Síkinu og á því varð engin breyting í kvöld. Liðin fóru bæði nokkuð stirt af stað í leikhlutanum en síðan fóru skotin að detta hjá gestunum úr Keflavík og þá ekki síst hjá Igor Maric sem setti þrjá þrista í röð á lokamínútunum og svo gott sem slökkti í heimamönnum. Fjórði leikhlutinn snerist svo um það hjá gestunum að halda Tindastól frá sér og þeir gerðu gott betur en það og náðu mest 14 stiga forystu. Stólar reyndu að klóra í bakkann en Keflvíkingar voru einfaldlega of sterkir og kláruðu leikinn með 9 stiga sigri 75-84

Drungilas átti fínan leik hjá Stólum með 20 stig og 11 fráköst en var mistækur inn á milli. Heimamenn hefðu þurft mun meira framlag frá Pétri Rúnari og Arnari Björns sem náðu ekki að láta ljós sitt skína. Hjá gestunum átti Igor Maric skínandi leik, var 6/9 í þristum og endaði með 23 stig. Milka var öflugur að vanda með 13 stig og 11 fráköst og Halldór Garðar átti góða innkomu.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Hjalti Árna)

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -