spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaKiddi með sigurkörfu á síðustu stundu - Grindavík skoraði 16 síðustu stig...

Kiddi með sigurkörfu á síðustu stundu – Grindavík skoraði 16 síðustu stig leiksins

Kristinn Pálsson tryggði Grindvíkingum sigur gegn ÍR í HS Orku Höllinni með þriggja stiga körfu um leið og leiktíminn rann út, 79-76.

Í fyrri hálfleik mátti ekki sjá á milli liðanna; hart barist á báða bóga og ekkert gefið eftir, enda munaði aðeins tveimur stigum á liðunum fyrir leik, Grindavík með 16 stig og ÍR 14, og þetta því sannkallaður fjögurra stiga leikur.

Í síðari hálfleik hélt baráttan áfram á fullu og var á stundum nokkur hiti í mönnum og bæði lið gáfu ekkert eftir í körfubolta og gáfu heldur engan afslátt í tuði og nöldri; þetta eru líka baráttuglaðir menn.

ÍR náði frumkvæðinu í fjórða leikhluta og virtist hreinlega búið að klára leikinn, en Danero Thomas skoraði þriggja stiga körfu þegar 4 mínútur og 13 sekúndur voru eftir, og kom þá ÍR í þrettán stiga forskot, 63-76. ÍR skoraði ekki meira í leiknum. Heimamenn rönkuðu við við sér og settu allt á fullt eftir afar slakan leikhluta fram að þessu. Með rosalegri baráttu og hressilega góðri vörn komu Grindvíkingar sér inn í leikinn og skoruðu síðustu 16 stigin, en eins og áður sagði var það Kristinn Pálsson sem setti sigurkörfuna um leið og síðustu sekúndubrot leiksins flutu út í óendanlegan himingeiminn. Heimamenn trylltust eðlilega af fögnuði enda gerbreytir þessi sigur stöðu liðsins og nú er stóra spurningin hvort Grindvíkingar nái meira jafnvægi það sem eftir lifir móts, en liðið er fjandi gott þegar það fer á flug.

Grindavík mætti til leiks með vængbrotið lið; Dagur Kár er enn að jafna sig eftir höfuðhögg í síðustu umferð, Joonas Jarvalainen var í leikbanni og Marshall Nelson leikur ekki meira með liðinu á þessu tímabili vegna meiðsla. Ólafur Ólafsson var afar traustur í liði heimamanna og Kazeembe Abif er að verða betri og betri. Besti maður Grindvíkinga var þó Björgvin Hafþór Ríkharðsson; spilaði af miklum krafti á báðum helmingum vallarins og þessi drengur er þvílíkur íþróttamaður; skoraði glæsilegar körfur, varði fullt af skotum og spilaði vörnina fantavel. Kristinn Pálsson var frábær á lokakaflanum og sýndi þá hvað í honum býr. Þá er vert að minnast á góða frammistöðu Braga Guðmundssonar sem er aðeins 17 ára gamall; stóð sig virkilega vel og átti sinn þátt í þessum sigri.

Hjá ÍR var Evan Christopher Singletary atkvæðamestur og Collin Pryor átti góða spretti, en eyddi örugglega um 75% af orku sinni í tuð og röfl. 

Þegar á heildina er litið má segja að ÍR-ingar hafi kastað frá sigrinum enda staða þeirra vænleg á lokakaflanum. En það þarf að klára leikina og það gerðu þeir ekki; Grindvíkingar hins vegar sýndu mikið hjarta í restina og þeir áttu sigurinn einfaldlega skilinn; sýndu hvað í þeim býr, líkamlega og andlega og það var sómi að liðsheild Grindvíkinga með 60% af venjulega byrjunarliðinu frá.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun: Svanur Snorrason

Fréttir
- Auglýsing -