spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÆvintýraleg fallbarátta framundan - Njarðvík þarf að vinna tvo leiki af þremur

Ævintýraleg fallbarátta framundan – Njarðvík þarf að vinna tvo leiki af þremur

Úrslit kvöldsins þýða að framundan er hrein ótrúleg lokabarátta á botni deildarinnar. Í kvöld vann Höttur góðan sigur á Þór Ak á sama tíma og Haukar unnu Tindastól. Síðar tapaði Njarðvík svo gegn liði Stjörnunnar og ÍR fyrir Grindavík.

Það þýðir að ellefufaldir íslandsmeistarar Njarðvíkur sitja á botni Dominos deildar karla og eru í bráðri hættu að falla í fyrsta sinn í sögu félagsins. Njarðvík er þó með jafn mörg stig og Haukar og Höttur og því ljóst að barist verður til síðasta blóðdropa.

Óhætt er að segja að Njarðvík er í verstu stöðunni af liðunum þessa stunda þar sem liðið þarf að vinna tvo af þremur leikjum sem eftir eru á tímabilinu. Liðið er nefnilega undir í innbirgðisbaráttu gegn bæði Haukum og Hetti og mun því alltaf lenda fyrir neðan liðin verði þau jöfn að stigum. Vegna þess að Haukar og Höttur mætast í 21. umferð er ljóst að annað liðið mun fá tvö stig í viðbót og þurfa Njarðvíkingar því fjögur stig til að tryggja sæti sitt í deildinni. Tvö stig fást fyrir sigur í deildinni.

Fyrri leikur Hauka og Hattar fór 90-84 fyrir Hetti á Egilsstöðum í febrúar. Það þýðir að Haukar þurfa að vinna með meira sex stigum til að vinna innbirgðisviðureign liðanna sem gæti reynst mikilvægt ef liðin enda jöfn að stigum.

Tap ÍRinga í Grindavík í kvöld gerir það einnig að verkum að liðið er enn í fallhættu. Breiðhyltingar hafa tapað fimm leikjum í röð. Liðið þarf hinsvegar bara einn sigur í viðbót til að vera svo gott sem klárt. ÍR hefur betur í innbirgðisviðureignum á Hauka og Hött en ekki á Njarðvík en Njarðvík og ÍR eiga eftir að mætast.

Fari svo að liðin fjögur verði öll jöfn að stigum er Njarðvík fallið en liðið á einungis einn sigur gegn þessum liðum til þessa. ÍR og Haukar eru þá í bestu stöðunni.

Eins og sést er algjörlega ótrúleg barátta framundan og margar sviðsmyndir mögulegar. Einnig sú að fleiri lið dragist með í fallbaráttu en til þess þurfa öll liðin að vinna alla sína leiki og því líkurnar á því nánast engar. Það hefur þrisvar gerst í sögunni að lið með 14 stig fellur úr efstu deild (Skallagrímur 2017, Hamar 2011 og Skallagrímur 2002). Ekki er ólíklegt að það gerist aftur í ár og gætu því 16 stig verið nóg til að halda sætinu í deildinni.

Að lokum má finna hér leikjaprógramm liðanna í fallbaráttunni fyrir þá sem vilja spá fyrir um lokaútkomuna.

9. sæti – ÍR

20. umferð – Stjarnan (H) : 3. maí kl 19:15

21. umferð – Njarðvík (H) : 6. maí kl 19:15

22. umferð – KR (Ú) : 10. maí kl 19:15

10. sæti – Höttur

20. umferð – Þór Þorlákshöfn (H) : 3. maí kl 19:15

21. umferð – Haukar (Ú) : 6. maí kl 19:15

22. umferð – Keflavík (H) : 10. maí kl 19:15

11. sæti – Haukar

20. umferð – Valur (Ú) : 3. maí kl 19:15

21. umferð – Höttur (H) : 6. maí kl 19:15

22. umferð – Þór Akureyri (Ú) : 10. maí kl 19:15

12. sæti – Njarðvík

20. umferð – Þór Akureyri (H) : 2. maí kl 19:15

21. umferð – ÍR (Ú) : 6. maí kl 19:15

22. umferð – Þór Þorlákshöfn (H) : 10. maí kl 19:15

Fréttir
- Auglýsing -